Skírnir - 01.09.1987, Side 104
310
PÁLLSKÚLASON
SKÍRNIR
bundna, hinni persónulegu tilvist. Ekkert okkar er manneðlið.
Manneðlið er hugtak sem viðutan heimspekingar hafa búið sér til í
því skyni að skýra mennina í ákveðnu rökkerfi: það á ekki við þá
einstöku líkamlegu veru sem hvert okkar er.
Hvernig má þá skýra þetta fyrirbæri sem hvert okkar er? Það
verður einfaldlega ekki skýrt eða skilið með sama hætti og önnur
fyrirbæri, þ. e. sem hlekkir í ákveðinni keðju eða liðir í kerfi. Hvers
vegna ekki? Vegna þess að sjálfsvitundin, vitund manneskjunnar
um einstaka tilveru sína, gefur henni algera sérstöðu í heiminum.
Eg greini mig frá öllu öðru — ég er, eins og Sigurður Nordal orðar
það, „einungis spurult barn frammi fyrir æfintýrinu að vera til“.2
Að vera til sem mennskur einstaklingur er að vera í spurn um til-
veru sína, gera sér ljóst að hún verður ekki skýrð eða skilin út frá
neinu öðru en sjálfri sér - og lifa og haga sér í samræmi við þetta.
En fólk er sífellt að dylja þessa staðreynd fyrir sér. Það rís ekki
undir því að hugsa og lifa sem óútskýranlegar, óréttlætanlegar
verur, frjálsar og ábyrgar fyrir tilveru sinni. Það býr til alls kyns
hugmyndakerfi til þess að breiða yfir fjarstæðu eigin tilveru og
reynir að festa tilveru sína í ákveðnar skorður. Það beitir vitund
sinni til að smíða hvers kyns blekkingar eða þegar verst lætur notar
frelsið, eins og Sigurður Nordal orðar það, „til þess að verða léleg-
ustu skepnur jarðarinnar“.3
Tilvistarhugsun kemur þannig fram sem uppreisn gegn hvers
kyns kerfishyggju, hvort sem hún er í vísindum og heimspeki eða
á sviði siðferðis, trúarbragða eða stjórnmála. ETppreisnin er fólgin
í því einu að minna okkur sífellt á þá staðreynd að „við erum og
verðum það sem við hugsum“, eins og Sigurður kemst að orði (LD,
s. 11). Eða með orðalagi Sartres: „Maðurinn er það sem hann gerir
úr sér.“4 Við ákveðum sjálf hvernig líf okkar verður, hvort við
kjósum að smíða alls kyns kerfi til að skipuleggja það út í ystu æsar
eða hvort við kjósum að berjast gegn slíkum kerfum, neitum því að
haga lífi okkar eftir ákveðnum formúlum.
Hugsun sem fer þessar slóðir getur tekið á sig margar myndir.
Frumsannindi hennar eru þau að við séum einstakar vitandi verur
sem verðum sjálfar að hafa fyrir því að finna tilgang lífsins eða gefa
lífi okkar merkingu. Þar með er þessi hugsun uppspretta margra
ólíkra lýsinga á hlutskipti mannsins og kenninga um það hvernig