Skírnir - 01.09.1987, Qupperneq 141
SKÍRNIR
KRISTIN TRÚ Á TÆKNIÖLD
347
íunnar af myrkrinu, sem kom yfir Egyptaland á dögum Móse-það
var ein af tíu plágum, sem lustu landið á þeim tíma - sé dagsanna:
Mikið eldgos í Eyjahafi varð á þessum dögum, askan þaðan hefur
myrkvað himininn yfir landi Faraós.
Fjölmargar frásagnir Biblíunnar hafa verið staðfestar á áþekkan
hátt. Það er út af fyrir sig fróðlegt. Nefna má Betlehemsstjörnuna
í því sambandi og myrkrið, sem varð, þegar Jesús var krossfestur.
Það má leiða sterk rök að því, að hér hafi verið um að ræða eðlileg
náttúrufyrirbæri. Hverju er svarað með því?
Þó að sagan, sem rakin er í Biblíunni, sé hluti af þeirri mann-
kynssögu, sem sagnfræðivísindi geta fjallað um, þó að hún geri sjálf
tilkall til þess að vera það, og setji sig þar með undir smásjá fræði-
legra rannsókna, þá er það augljóst, að niðurstöður um sanngildi í
sagnfræðilegri merkingu hrökkva næsta skammt.
Hverjar voru náttúrufræðilegar orsakir þess myrkurs, sem kom
yfir Egyptaland? Þó að því sé svarað og þó að eðlilegar skýringar
lægju fyrir á öllum þeim plágum, sem greint er frá, þá er því ósvar-
að, sem er mergurinn málsins: Þessi fyrirbæri gerðu Faraó svo
hræddan, að hann gafst upp fyrir sífrandi, júðskum þrælalýð, en
sömu fyrirbæri gerðu þennan vonlausa rytjulýð svo hugrakkan, að
hann taldi sér allt fært, og varð þjóð, sem lifði og lifir enn á
minningunni um þessa atburði, auk þess sem hún fæddi af sér krist-
indóminn. Móse og hans fólk sá tákn í þessum fyrirbærum: Guð
var að verki, Guð hefur náttúruna á valdi sínu, Guð stýrir sögunni
þrátt fyrir allt, Guð hlutast í málefni kúgaðra, leysir úr ánauð,
bjargar frá dauða, Guð hefur stefnu og markmið, sem enginn
mannlegur máttur ónýtir.
„Lofsyngið Drottni, því að hann hefur sig dýrlegan gjört“ söng
Mirjam (María) og allar konurnar með henni, þegar lýðurinn hafði
bjargast. (1. Móse 15, 20-21). Það lofgjörðarstef þagnaði aldrei
síðan.
Það orkar ekki tvímælis, að það eru ekki atburðirnir sjálfir, sem
birta þá merkingu og vekja þá hugsun, sem hér var lýst. Þeir voru
naktar staðreyndir og unnt að lesa í mál þeirra með ólíkum hætti
ellegar ekki neitt. Þeir urðu frásagnarefni á blöðum Biblíunnar af
því að þeir voru túlkaðir með ákveðnu móti. Sú túlkun er augljós-