Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 195
SKÍRNIR
RITDÓMAR
401
þessa fólks sérstæða. En fyrir tök höfundar á efni sínu tekst einnig að gera
þá sögu algilda. Ber þar fyrst til, að kafað er af blæbrigðaríku næmi í sálar-
afkima persónanna, og þegar upp er staðið, gleymist manni, að þær eru
tákn ólíkra lífsgilda. Þær verða fyrst og fremst lifandi manneskjur. Höf-
undur lýsir öllu þessu fólki af umtalsverðri samúð, svo sem góðum höfundi
ber, og öllum gefur hann málsbætur. Þó læðist sá grunur að lesanda og
áhorfanda, að Reynir eigi dýpri samúð hans en Hörður, að honum þyki
vænna um Oldu en Gunnar.
Bygging og stíll
Efni leiksins eða atburðarrás verður ekki rakin hér. Endursögn af slíku tagi
er heldur fánýt; umgetning um verk verður hvort eð er aldrei skiljanleg
nema af lestri verksins sjálfs. En nú verður vikið nokkrum orðum að bygg-
ingu leiksins.
Bygging Dags vonar er skýr og klár og tónninn frá upphafi raunsæilegur,
krefur lesanda eða áhorfanda um að láta taka sig trúanlegan. Fyrsti þáttur
er inngangur í hefðbundnum stíl, kynning á þema leiksins og persónum; í
lok þáttarins eru ris, sem skapa spennu og benda til þess, sem koma skal.
Leikurinn vindur sig síðan áfram með dramatískum þunga þannig, að
hvergi er færi á að snúa við í atburðarásinni. I lok annars þáttar eru ris að
nýju, þar eru átök, sem skipta sköpum fyrir það, sem síðar á eftir að koma
í ljós, sáðkorn innri leiklausna í lokin. Hvörfin eru svo í lokaatriðinu, þegar
Alda nær aftur til umheimsins og Lára öðlast nýja sýn.
Ytri atburðarás verksins fær dýpri skáldlega merkingu með þeirri aðferð
höfundarins að vefa tákn inn í hversdagslegan veruleika persónanna; þessa
aðferð þekkjum við úr sumum fyrri verkum Birgis - mannsaugu selsins,
grasmaðkurinn. Hér verður sólin, sem sortnar og rís að nýju, ríkjandi tákn
þess lífsvarma, sem leikurinn boðar, þessi lífglæðir í hringrás náttúrunnar,
sem mannskepnan tilheyrir einnig - aftur og aftur kemur lesanda Völuspá
íhug.
Hin skáldlegu tákn rjúfa hvergi raunsæilegan trúverðugleika verksins,
því að flest falla þau orð af munni Öldu og vegna geðveilu hennar fá þessi
meðvituðu stílbrot frá eðlilegu talmáli formerki, sem leyfa þeim að falla á
lífrænan hátt inn í heildina. Stíll verksins er því mikið til raunsæilegur og
samtölin undantekningarlítið þannig „að þau gætu staðist í raunveru-
leikanum". Bygging og stíll eru því hnökralítil út frá sínum gefnu forsend-
um. Þó á ég erfitt með að taka gilt, að Gunnar hugsi upphátt eftir að Lára
er farin út í lok 2. þáttar (bls. 65); því hreytir hann þessu ekki bara framan
í Öldu? Á sama hátt á ég erfitt með að meðtaka ræðu Reynis yfir Guðnýju
(bls. 75-78), mér þykir hún of Harðarleg, hefði trúað betur á óöruggari leit
hjá Reyni á þessu stigi málsins, ellegar að hann væri sjálfstæðari í vali sínu
á bókmenntalegum guðum.
Stíllinn er yfirleitt knappur, þó að einstaka sinnum velli mælskan upp úr
persónunum, einkum þeim bræðrum. Talsvert er þar um endurtekningar.
26 — Skírnir