Skírnir - 01.09.1987, Síða 179
SKÍRNIR
RITDÓMAR
385
skrifar vandað mál, beitir að nokkru marki lítt tömum nýyrðu.n, en yfir-
leitt er textinn auðskilinn og jafnvel kumpánlegur að blæ.
Þorsteini lætur vel að fara hægt yfir, leyfa sér að vera nokkuð langorður,
enda þarf þess til að gera flókið efni aðgengilegt. Hann kryddar frásögnina
fjölvíða með beinum þýðingum, bæði úr heimildartextum og fræðiritum -
er kannski óþarflega örlátur á að gefa erlendum fræðimönnum orðið þar
sem endursögn dygði. Hann hikar ekki við að bollaleggja út frá efninu, og
stílsmátinn er persónulegur í besta lagi. („I mínum eigin hugleiðingum
hallast ég helst að [...]“ (bls. 45). „Ég á fyrir mína parta erfitt með að gera
mér annað í hugarlund en [...]“ (bls. 216). Tónninn er þægilegur og ekki tal-
að niður til lesandans (nema þar sem hann telur „þess hvort eð er ekki að
vænta að lesandinn átti sig til hlítar á“ rökunum gegn stöðu sálarrannsókna
meðal vísinda (bls. 211)).
Þorsteinn er sem sagt prýðilega til þess fallinn að gerast leiðsögumaður
okkar um einkar athyglisverðar slóðir vísindasögunnar.
1. Það er raunar ónákvæmni á bls. 43 og 264 að tala um „misjafna" lengd
árstíðanna þar sem átt er við breytilega lengd þeirra. Spaugsemi á bls. 41
um alþjóðaheitið á veðurfræði, „meteorólógía“, þyrfti líka að fylgja
skýring á gríska orðinu meteor. (Svo eru Sókratesi lögð í munn (bls.
136) ummæli um „veðurfræðinga", en það hlýtur að teljast neyðarþýð-
ing vegna þess að það er allt önnur fræðigrein sem nú er svo nefnd.)
2. Ég trúi því þó ekki fyrirvaralaust að landakort það, sem Hekataíos frá
Míletos á að hafa teiknað um 500 f. Kr., sé „þetta kort“ sem Þorsteinn
birtir á bls. 105 (með nöfnum á blöndu af ensku og latínu). Ætli þessu
sé ekki líkt farið og kortinu á bls. 182, sem Þorsteinn kveður teiknað eft-
ir gögnum annars landfræðings? Svo er ég alveg á móti því (bls. 157,159)
að kalla aflfræðina öðrum þræði „vélfræði".
3. Heldur er það stórskorin listasaga (bls. 226) að segja fyrirrennara endur-
reisnarmálara - síðgotnesku snillingana! - „mála sosum ósköp flatar og
líflausar myndir sem okkur finnst lítið til koma sem listaverka". Svo er
ekki til siðs (bls. 225) að tala um „da Vinci“ og meina Leonardo; hann
er einn þeirra endurreisnarmanna sem jafnan eru nefndir fornafni eins
og konungar eða Islendingar.
4. T.d. (bls. 289) um „snoturt dæmi um áhrif grískunnar" þar sem bók-
stafsheitið jóta er notað í ensku. Þar er ögn villándi að taka ekki fram að
umrætt orðasamband, not an iota, er úr Fjallræðunni (Mt. 5,18); „Mun
ekki einn smástafur eða einn stafkrókur lögmálsins undir lok líða“. Þar
hefur smástafurinn orðið innlyksa í enskri tungu á sama hátt og staf-
krókurinn í íslenskri.
25 — Skírnir