Skírnir - 01.09.1987, Síða 183
SKÍRNIR
RITDÓMAR
389
Grámosinn er myndræn saga, en hún er líka full af tónlist. Bæði eru fjöl-
margar samlíkingar sóttar í heim tónlistarinnar og auk þess berast alls kon-
ar tónar, söngvar og hvers kyns hljóð að eyrum frá upphafi til enda. Um
leið og hugsun Asmundar er líkt við mynd er hún „sívakinn tónn í víðreist-
um hljómflutningi“ (14). Og svar Þórðar, samferðamanns Ásmundar, „var
á dýpri nótum, næstum selló“ (123). Á ferðalaginu að austan leggst Ás-
mundur í grasið á árbakka og hlustar á vatnsniðinn
sem tók völdin, og þandi sig um allt sviðið margómandi og hljóm-
andi svo ekkert var annað lengur en tónastef með endalausum flétt-
um og tilbrigðum, og hækkaði og breiddist um allt, hlóð allar æðar,
ómaði yfir og undir, og duldir rómar skýrðust og tóku að kveða að;
raddir sem ýmist voru grisjaðar, ellegar margvafðar hljómbrigðum,
og fleytt fram æ voldugri í þessum allsherjar straumi. . . (249)
Meðan ferðalangarnir eru enn fjarri staðnum þar sem tíðindin gerast
birtast lesandanum elskendurnir tveir, hálfsystkinin, ein á ástarfundi, en til
skiptist við það og ferðalagið er skotið inn brotum úr sögu Jóns morðingja.
Þessi Jón er ákærður og játar að hafa drepið unnustu sína þungaða. Þetta er
óhugnanlegt mál, en þegar aðdragandi morðsins skýrist varpar það nokkru
ljósi á hitt málið og þó kannski ekki síst aldarfarið, aðstæðurnar sem áttu
þátt í að menn gripu til slíkra voðaverka.
Um miðbik sögunnar eru ferðalangarnir komnir á áfangastað og um það
leyti hverfur mál Jóns úr sögunni. Þá hefjast réttarhöldin á prestssetrinu,
þungamiðja sögunnar. Eiginleg hvörf verða þó ekki þegar játningin er gerð
heldur í köflunum „Opið“ og „Hvað felst í einu ópi?“. Þeir mynda há-
punkt sögunnar og í næsta kafla á eftir „Samsæti um nótt“ er lýst afar vel
orðlausri skelfingu sýslumannsins. Það á einkennilega vel við að láta prest-
inn og sýslumanninn þegja saman og fara svo að lesa fyrst úr Jobsbók og
síðan texta Prédikarans: „Og mundu eftir skapara þínum“ (213).
Á eftir fara mjög dapurlegir kaflar, málið liggur ljóst fyrir, barnslíkið
finnst og jarðarför Sólveigar fer fram. Það dregur úr spennu en tónarnir eru
þungir og daprir. Þá er í miðri jarðarför skotið inn kafla þar sem farið er aft-
ur í tímann með mjög átakanlegum kafla og sársaukafullum sem heitir
„Nýtt líf“ og lýsir af hryllilegri nákvæmni barnfæðingu og barnsmorði.
Mestur hluti sögunnar er sagður frá sjónarhorni Ásmundar. Mál Jóns
morðingja birtast í formi réttarskjala sem Ásmundur hefur undir höndum
og inn í það fléttast hugleiðingar hans um þetta mál. En stundum skiptir um
sjónarhorn og sýnt er í huga prestsins, konu hans, Sólveigar og bróður
hennar. Nokkrir kaflar gerast algjörlega í huga Sólveigar, ástarfundur,
nauðgun og fæðing. Þessir kaflar sem sýna í hug hálfsystkinanna eiga stór-
an þátt í að skýra persónur þeirra, enda vakna í hugum þeirra sárar
minningar og reynsla sem erfitt er að lifa með. Lýsingin á Sæmundi Frið-
geiri, en það heitir bróðirinn, þegar hann er „aleinn, lítill og kaldur; og