Skírnir - 01.09.1987, Síða 198
404
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
Tengsl
Eitt helsta höfundareinkenni atómskáldanna svonefndu er orðfæð þeirra,
eða „vantraust á orðum“ svo vitnað sé í ummæli eins þeirra. Til þess að orð
geti staðið í ljóði þurfa skáldin að þekkja það til hlítar, hafa lifað það á sjálf-
um sér. Vantraustið hefur einkum komið fram í tveimur allólíkum
myndum. Annars vegar höfum við kynnst atómskáldunum sem slyngum
orðsmiðum og málvöndunarmönnum sem leggja þunga áherslu á fágað og
merkingarríkt mái. Hins vegar höfum við iðulega orðið vitni að því hvernig
„vantraustið" hefur þróast út í hreina og klára þögn, jafnvel svo árum eða
áratugum skiptir.
Báðar þessar myndir hafa sett sterkan svip á skáldskap Stefáns Harðar
Grímssonar. Á rúmum fjörutíu árum hafa einungis birst eftir hann fimm
litlar ljóðabækur, Glugginn snýr í norður 1946, Svartálfadans 1951, Hliðin
á sléttunni 1970, Farvegir 1981 og nú loks Tengsl 1987. En sproti skáldsins
er voldugur þá sjaldan hann er hafinn á loft. Og með ljóðum sínum hefur
það í senn reist sjálfu sér óbrotgjarnan minnisvarða og átt drjúgan þátt í
endurnýjun íslenskrar ljóðagérðar á síðari hluta þessarar aldar.
Tengsl er yfirlætislaus ljóðabók sem virðist við fyrstu sýn ekki bæta
nýrri vídd í skáldskap Stefáns Harðar. Hún er hins vegar ein þeirra bóka
sem vinna á við nánari kynni, enda hefur hún að geyma mörg afbragðsljóð.
Ut frá ytra formi er unnt að skipta þeim í tvo megin flokka. Annars vegar
eru tiltölulega löng og útleitin ljóð þar sem gætir þó nokkurrar mælsku og
skáldleg orð og myndir sitja í fyrirrúmi. Hins vegar eru þar allmörg stutt
og miðleitin ljóð sem mótast af vissu afturhvarfi til grundvallarforms ljóð-
ræns skáldskapar, leiks að hljómum sem kallast á. Hér er myndmálið einfalt
og skrautlaust, enda er ljóðunum fremur ætlað að höfða til tilfinninga en
vitsmuna. Tvær smágervar svipmyndir eða stemningar af þessum toga,
„Húm“ og „Húm II“, þriggjalínu ljóð í anda ímagismans, umlykjabókina.
Þessi smáijóð eru sérstaklega athyglisverð fyrir þá sök að þar reynir svo
um munar á íþrótt skáldsins í að velja rétt orð og raða þeim saman í listræna
heild. Hér er sérhvert atkvæði, að ekki sé talað um orð, ólíkt þyngra á met-
um en í þeim ljóðum sem lengri eru, og lítið má út af bera svo ekki hallist
á með þeim. I „Húmi“ (bls. 11) er jafnvægislistin fullkomin.
Hve hljótt
flögra þau fiðrildin
fegurstu nótt í sumri
Eins og sjá má er sérhvert orð þungvægt. Ekkert þeirra er þó svo veiga-
mikið að það steli senunni frá öðrum, enda er hefðbundnum brageigind-
um, áherslum, stuðlum og rími bróðurlega skipt á milli þeirra. Um leið er
eðlileg tilbreyting í hljómfallinu sem gæðir það vissri mýkt og gerir það að
verkum að orðin streyma nánast átakalaust fram.