Skírnir - 01.09.1987, Side 135
SKIRNIR
KRISTIN TRÚ Á TÆKNIÖLD
341
vegna svona mikill í draumum þínum, hugboði, handaverkum og
hamingju, þegar vel er, hvers vegna svona veikur og slysinn, svona
glámsýnn og vanmegna gagnvart óræðum öflum í fari þínu og
gerð? Hverju geturðu treyst? Erþrátt fyrir allt eitthvað til, sem get-
ur haldið uppi von þinni og veitt þér öryggi, fótfestu á hverju sem
gengur? Er þrátt fyrir allt eitthvert vit í því, að þú ert til? Hefur líf
þitt tilgang eða markmið, sem þú getur sveigt vilja þinn til móts
við? Er eitthvað eða einhver meiri en sjálfur þú, sem þú getur byggt
á og treyst til þess að skapa heillegt munstur úr þessum sundurleitu
og innbyrðis andhverfu þáttum og þráðum, sem þú rekur þig á í
eðli þínu og gera heiminn þinn fyrr og síðar svo blendinn og bölvi
þrunginn, líka og ekki síst heim vísinda og tækni?
Nú byggist tilvera kristinnar trúar frá fyrsta fari á þeirri auð-
mjúku vitund, að hún hafi þegið gilt svar við frumspurningu
mennskrar hugsunar og mannlegs lífs. Það er sjálfsvitund hennar,
líf hennar. Frá Gyðingum tók hún þá vissu í arf, að skapari himins
og jarðar, hinn huldi hugur að baki alls veruleiks, hefði gert sig
kunnan, opinberað sig, talað. Ekki aðeins spurt ráðalausan mann:
Hvar ert þú, hvað hefur þú gjört? Heldur sagt: Hér er ég, ég kalla
á þig, þú ert minn. Ég hef skapað þig mér til eignar, þú ert það duft,
sá leir, sem ég hef lagt anda minn í, greypt mynd mína í, og ætla að
móta samkvæmt þeirri frummynd af þér, sem ég geymi í huga
mínum. Eg kalla þig til vakandi vitundar um og þjónustu við það
markmið, sem ég hef sett sköpun minni.
Þetta er innsti þráður og burðarþáttur þeirrar sögu, sem rakin er
í Biblíunni. Hún snýst um köllun og uppeldi ákveðinnar þjóðar,
sem er fulltrúi mannkyns og staðgengill, þess mannkyns, sem hefur
fallið frá ákvörðun sinni, brugðist skapara sínum og sjálfu sér þar
með. Því er manneskjan í mótsögn við sjálfa sig, sjálfri sér sundur-
þykk. Og það er hennar sök, ekki Guðs. En Guð gerir það vanda-
mál að sínu, hann ætlar að endurheimta manninn sinn úr þeim
álögum, sem hann hefur fellt á sig, koma honum til sjálfs sín.
Endurleysandi, skapandi máttur hans stefnir manni og heimi í
mark, berst til sigurs. Ríki hans er framundan, nýr maður, nýr
himinn, ný jörð, þar sem vilji hans, hið góða, fagra, fullkomna, er
allt í öllu.
Hér var bent á uppistöðuna í því drama, sem blasir við í Biblí-