Skírnir - 01.09.1987, Side 87
SKÍRNIR
ARFUR HEGELS
293
gengur á vissan hátt lengra en þeir með því að halda fram að það sé
ekki einungis náttúran sem er skilin röklega og kerfisbundið eins
og guðs þanki, heldur ekki síður hinn mannlegi veruleiki, rás sög-
unnar og þróun menningar og þjóðfélags.
Þessi eindregna rökhyggja hlýtur að stangast á við viðhorf þeirra
raunhyggjumanna sem vilja byggja þekkinguna á skynreynslu og
svonefndum staðreyndum og eins hugsuða eins og Kants sem vilja
marka rökhugsun bás eða benda á takmörk hennar og telja innsta
kjarna veruleikans henni óaðgengilegan. En hér er þó Hegel eink-
um á öndverðum meiði við þá hugsuði sem beinlínis má kenna við
rökleysisstefnu (irrationalisma) eða þeirra sem gera blinda lífsorku
eða hvatir að uppsprettu alls veruleika, svo sem þýzki heimspek-
ingurinn Arthur Schopenhauer (1788-1860) og ýmsir aðrir sem
fylgja í kjölfar hans.
Og það fer víst vart á milli mála að við getum einkennt heimspeki
Hegels með orðinu hughyggja, eins og hann gerði sjálfur, og er
raunar sú nafngift er hann valdi henni, þ. e. alger hughyggja (abso-
luter Idealismus), einkar vel til þess fallin að orka sem ögrun við þá
sem kenna sig við efnishyggju og vilja byggja á sjálfstæðri tilvist
einhvers sem kalla má efni. En sem hugspekingur eða ídealisti fellst
Hegel á hina fornu setningu að hugsun og vera sé eitt og hið sama
og það á þann veg að í þeim veruleika sem skynjaður er sem ein-
stakir ytri hlutir endurspeglist almenn hugtök og rökrænt sam-
hengi.
En ólíkt hinni grísku hughyggju, sem reisti kyrrstæðan heim ei-
lífra frummynda andspænis síbreytilegum og margbreytilegum
skynheimi og aðskildi veru og verðandi, þykist Hegel með sinni
tvísýnu hugsun, þar sem hugtökin búa sjálf yfir einskonar hreyf-
ingu, geta brúað þetta bil, og samsamað lögmál hugsunar og raun-
veruleika, rökfræði og verufræði. Heimspeki Hegels má að þessu
leyti skoðast sem díalektísk einhyggja, þar sem hún tengir órjúf-
andi saman þau verusvið sem mönnum er svo tamt að aðskilja: hið
eilífa og hið stundlega, hið verandi og hið verðandi, hið innra og
hið ytra, og hlýtur því að ganga í berhögg við tvíhyggju eða hand-
anhyggju hvers konar.
En önnur hliðin á þessu er það sem við getum kallað heildar-
hyggju eða alhyggju. Alhyggja er það viðhorf að líta á alla hluti í