Skírnir - 01.09.1987, Síða 34
240 JÓNAS KRISTJÁNSSON SKÍRNIR
sem leggja megináherzlu á arfsagnirnar, — heldur en sjónarmiðs
hinna „krítisku“ sagnfræðinga," eins og Sigurður Nordal segir.8
Engu að síður lögðu útgefendur Fornritanna mikla áherslu á hinn
frumlega hlut rithöfunda í sköpun sagnanna, og að sama skapi varð
þá minna rúm eftir handa munnmælasögnum, sönnum jafnt sem
ýktum. Og sjálfur greiddi Sigurður sagnatrúnni þungt högg með
riti sínu, Hrafnkötlu sem hér var til vitnað.
Um miðjan fimmta áratug þessarar aldar var Jón Jóhannesson
sögudósent (síðar prófessor) önnum kafinn að kenna mér og öðr-
um stúdentum réttarsögu Alþingis hins forna. Hann studdist við
bók Einars Arnórssonar, en lét okkur strika vandlega út allar til-
vitnanir Einars til Islendingasagna, með þeirri röksemd að sögurn-
ar væru ótraustar heimildir. Og 1956 birti Jón Jóhannesson sjálfur
sögu íslenskrar fornaldar, íslendingasögu I, stórfrumlegt verk þar
sem beitt er nýrri sagnfræðilegri heimildarýni. Hann gengur svo
langt að hann nefnir næstum enga atburði sem frá er sagt í Islend-
ingasögum fremur en þeir hefðu aldrei gerst. Þó var Jón fjarri því
að vera einstrengingslegur í skoðunum. Ég spurði lærimeistara
minn skömmu eftir að sagan kom út hvort hann héldi þá að Islend-
ingasögurnar væru eintómt skrök og skáldskapur. Nei, alls ekki,
svaraði Jón, en ég veit bara ekki hvað ég á að gera við þær.
Og þannig er ástandið enn í dag. Islenskir sagnfræðingar láta eins
og Islendingasögur séu ekki til. I atburðasögu landsins er allmikið
gaphús frá lokum landnámsaldar og fram að Sturlungu, eða í nærri
200 ár. Nokkrar eyðufyllingar eru þó sóttar í Islendingabók Ara
fróða og Hungurvöku (yfirlitsrit um biskupa í Skálholti fram að
Þorláki). Kristniboðsfrásagnir eru teknar upp úr Kristnisögu
Sturlu Þórðarsonar og Kristniþætti í Olafssögu Tryggvasonar
hinni miklu, hvað sem því veldur að menn trúa þeim „fortíðarsög-
um" betur en öðrum — liðið var nokkuð á þriðju öld frá því að at-
burðir gerðust þegar þær voru færðar í letur. I Islandssögu Bók-
menntafélagsins, 1. bindi sem út kom 1974, er nálega ekkert úr Is-
lendingasögum nema ef telja skyldi það sem Jakob Benediktsson
tekur upp úr Grænlendingasögu um fund Norður-Ameríku, en
hann tekur þó fram að sögunni sé „ekki í öllu treystandi“.9 En
ástæðan til þess að vegur Grænlendingasögu hefur verið mikill um
skeið er sú að Jón Jóhannesson hélt því fram að hún væri æði