Skírnir - 01.09.1987, Síða 97
SKÍRNIR
ARFUR HEGELS
303
beindi skeytum sínum gegn. Hafi Marx stefnt að því að snúa kerf-
inu við í heilu lagi, þá má segja að Kierkegaard hafi stefnt að því að
splundra því og leysa upp í frumparta sína.
Nú ber að hafa í huga, að þótt Kierkegaard sé einkum frægur fyr-
ir Hegelgagnrýni sína, þá er heimspeki Hegels langt í frá það eina
sem hann snerist hatrammlega gegn. Hann snerist í rauninni gegn
flestu því sem við erum vön að telja til framfara og tengjum við
upplýsingu, svo sem þjóðfélagsumbætur, aukið lýðræði, vísinda-
framfarir, trúarlegt umburðarlyndi eða frjálslyndi. Það er því auð-
velt að kenna Kierkegaard við afturhald og afgreiða hann á marx-
ískan hátt sem hugmyndafræðing sem sé í rauninni, meðvitað eða
ómeðvitað, að verja stéttaforréttindi og dulgera hlutina. En sagan
er þó ekki öll sögð með því, því gagnrýni Kierkegaards á Hegel ein-
kennist af mikilli skerpu og hefur að mörgu leyti opnað mönnum
nýja sýn.
Vissulega voru þeir ólíkir persónuleikar Kierkegaard og Marx,
og sá fyrrnefndi var á engan hátt tengdur fjöldahreyfingu né stefndi
að því að skírskota til fjöldans með fleygum setningum sem æpa má
í gjallarhorn eða letra á húsveggi, en setti hins vegar hugsanir sínar
fram á fremur óbeinan máta, og faldi sig gjarnan í bókum sínum
bak við dulnefnda höfunda, sem hver um sig var aðeins brot af hon-
um sjálfum og verða því að lesast með fyrirvara. Kierkegaard varð
ekki mikillar upphefðar aðnjótandi í lifanda lífi og var einkum bit-
bein skopblaða í heimalandi sínu.
Fáir menn hafa farið eins háðulegum orðum um sína eigin þjóð
og Kierkegaard og borgin við Sundið, sem stóð mörgum löndum
okkar á síðustu öld fyrir hugskotssjónum í töfraljóma, var í hans
augum hið argasta smáborgarabæli í víðri veröld. Eitt af þeim nöfn-
um sem hann valdi löndum sínum var að þeir væru „vindgleypar“,
en sú nafngift stóð í sambandi við það hve fræði Hegels voru hátt
metin í landinu um þær mundir, því Hegel var að hans sögn aftur
á móti mestur allra þeirra „vindbelgja“ sem voru á ferðinni í land-
inu fyrir sunnan.
En þótt þeir Marx og Kierkegaard séu gjörólíkir og gagnrýni
þeirra sprottin af gjörólíkum sjónarmiðum, þá eru þar vissir snerti-
punktar. Báðir töldu heimspeki Hegels að miklu leyti fánýta
„spekúlation", sem væri fallin til að draga menn frá því verkefni