Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 37
SKÍRNIR
SANNFRÆÐI FORNSAGNANNA
243
orða bundist og ritaði um þetta efni grein í Skírni sem hún nefndi
„Fáein alþýðleg orð“. Greinin er frábærlega skýr og vel rituð, og
Kristín færir með mikilli hógværð skynsamlegar röksemdir gegn
boðskap niðurbrotsmanna. Einn í þeirra flokki er ég undirritaður,
þótt Kristín trúi því reyndar ekki að ég sé „í flokki þeirra fræði-
manna sem lengst vilja ganga í því að gera lítið úr sanngildi fornrit-
anna, síður en svo,“ - enda erum við bæði fædd og upp alin í sama
héraði. Hún dregur fram fjölmörg atriði í sögunum og sýnir hvern-
ig þau móta samfellda mynd af „söguöldinni". Hún kveðst hafa
skrifað greinina í áföngum á fjórum árum áður en hún dirfðist að
láta hana frá sér fara, en þegar hún birtist þóttust margir heyra þar
„den uskyldiges röst“.
Sagnir og bóksögur
Aður en lengra er haldið langar mig að hnykkja á nokkrum al-
mennum staðreyndum sem varða viðfangsefni þessarar greinar.
1. Fjarlœgð frá atburðum. Sögurnar eru því líklegri til að vera
sannfróðar sem skemmra var liðið frá atburðum þegar þær voru
ritaðar. Islendingabók Ara fróða kemst allra sögurita næst því að
vera samtímaheimild um söguöldina, svo langt sem hún nær, og því
er lítið vit í að taka aðrar frásagnir fram yfir hana. En Njála er ýkj-
um blandin eins og Árni Magnússon skildi, þótt hún styðjist við
sannfróðar ættartölur og þó að frásögn hennar af kristnitökunni sé
með nokkrum hætti runnin frá íslendingabók. Og íslendingasaga
Sturlu er traust samtímaheimild, en Grettla er „fabulosa“ eins og
Árni segir, þótt þar sé vitnað til Sturlu á þremur stöðum. Oft gæta
menn þessa miður en skyldi, hversu sumar sögur eru nærri því að
vera samtímaheimildir, og hversu aðrar standa órafjarri atburðun-
um.
Eg skal nefna eitt dæmi til skýringar: í sögu Páls biskups Jóns-
sonar segir að hann lét „steinþró höggva ágæta hagliga, þá er hann
var í lagður eftir andlát sitt.“ Þegar grafið var upp í Skálholti 1954
fannst kista Páls með líkamsleifum hans og biskupsstaf þeim sem
einnig er lýst í sögunni. Þá fagnaði margur sagna-trúmaður og þótti
hér fengin áþreifanleg sönnun fyrir því að „sögurnar“, án nánari
skilgreiningar, séu sannar. En Pálssaga er samtíðarsaga, rituð rétt