Skírnir - 01.09.1987, Qupperneq 153
SKIRNIR
ÍSLANDSFÖR BRESKA FLOTANS
359
óljós og skoðanir okkar á honum hlutu að verða mismunandi. Nú
hafa höfundi þessarar greinar hins vegar borist skjöl úr skjalasafni
breska flotans í þjóðskjalasafni Breta (Public Record Office), og
varpa þau skýrara ljósi á ýmislegt, er snertir tildrög og tilgang flota-
heimsóknarinnar 1896. Er þar annars vegar um að ræða skjöl, er
greina frá samskiptum breskra og danskra stjórnvalda, og hins veg-
ar bréf og skýrslur Atkinsons yfirforingja, sem hann sendi bresk-
um stjórnvöldum meðan á Islandsferðinni stóð. Hér á eftir verður
reynt að greina sem nákvæmast frá þeirri vitneskju, sem fá má af
þessum skjölum. Fyrst verður þó að gera stuttlega grein fyrir gangi
mála fram til 1895.
II
Það var upphaf togveiða á íslandsmiðum, að sumarið 1889 gerðu
breskir línuveiðarar tilraunir til veiða með botnvörpu við Aust-
firði. Um árangurinn er ekki vitað, en hitt er ljóst, að tilraunir, sem
þýskur togari gerði til sams konar veiða á Faxaflóa sama sumar,
mistókust með öllu.
Sumarið 1891 veiddi breskur togari með botnvörpu við suðaust-
urland, og árið eftir komu margir togarar frá Bretlandi til veiða hér
við land. A næstu árum jókst sókn þeirra stöðugt, jafnframt því
sem veiðisvæðið stækkaði, og sumarið 1894 stunduðu þeir veiðar
frá Vopnafirði og suður og vestur um, allt að Vestmannaeyjum.
Sumarið 1895 komu togararnir fyrst á Faxaflóa, sem varð aðal-
veiðisvæði þeirra næstu ár og áratugi.
Togaramenn fóru tíðum fram af miklu offorsi. Þeir virtu ekki
landhelgismörk, nema þegar þeim sjálfum hentaði, og þar eð sekt-
arákvæði í lögum, sem sett voru 1889 um bann við botnvörpuveið-
um í landhelgi við ísland, voru alltof lág, létu þeir sig litlu skipta,
þótt þeir væru teknir fyrir landhelgisbrot. Af þessum sökum tóku
alþingismenn á sig rögg árið 1894 og settu ný lög um bann við
botnvörpuveiðum í landhelgi. Þau voru miklu strangari en eldri lög
og samkvæmt 2. gr. þeirra varðaði landhelgisbrot sektum, frá 1.000
til 10.000 króna. Auk þess mátti gera afla og veiðarfæri upptæk.
Þetta mátti kalla eðlileg viðbrögð og olli ekki deilum. Það gerði
hins vegar 3. gr. laganna, en samkvæmt henni var skipum óheimilt