Skírnir - 01.09.1987, Síða 208
414
PÁLL VALSSON
SKIRNIR
hinn bóginn er hættan sú að bókmenntunum sé þar með gert rangt til; þær
einfaldaðar svo mjög að villandi mynd fáist af þeim.
Það er skemmst frá því að segja að Matthías Viðar kemst vel frá verkefni
sínu. Hann fer nákvæmlega í saumana á þeim verkum sem hann tekur til at-
hugunar, og þau eru ekki fá, og getur þannig gert grein fyrir því í hverju til-
viki ef þau víkja frá meginhugmyndum hans. En mergurinn málsins er
kannski sá að það er býsna sjaldgæft. Þessar bókmenntir eru sannarlega
árdagar íslenskrar skáldsögu því einhæfni þeirra er með ólíkindum, eins og
Matthías bendir reyndar á. Það er nánast eins og hver bók vaxi upp af ann-
arri, með keimlíkri formgerð, hugmyndafræði og allt að því sömu persón-
um.
Einhæfni sagnanna hefur þær afleiðingar fyrir Matthías að bók hans
verður á köflum fjarska erfið aflestrar, langdregin og mikið um endurtekn-
ingar. Þá dregur stíll hans stundum dám af efninu og verður dálítið þung-
lamalegur og fábrotinn og er honum það vorkunn að vissu leyti. En á heild-
ina litið hefði Matthías trúlega getað skorið bókina nokkuð niður, gert
hana knappari og hnitmiðaðri og fyrir vikið aðgengilegri. Til dæmis bæta
sumar skýringarmyndirnar fremur litlu við skilning á textanum nema síður
sé. Þar má nefna einföld andstæðulíkön hans sem mörg hver hefðu mátt
missa sín að ósekju. Þá má nefna að umfjöllun um sum skáldin, svo sem um
Guðmund Friðjónsson, bætir litlu við heildarmyndina, og gerir bókina
einungis erfiðari í lestri. En óneitanlega mæla sterk rök með því að þessi
skáld séu með. Það ber að hafa í huga að Matthías er hér að vinna ákveðið
brautryðjendaverk, - að kortleggja bókmenntaskeið sem menn hafa lítið
hirt um til þessa og þá þróun sem verður til þess tíma sem menn hafa vanist
að kalla upphaf nútímabókmennta.
I grundvallaratriðum stenst greining Matthíasar mjög vel og ritgerð hans
er fagmannlega unnin. Flestar meginhugmyndir sínar styður hann traust-
um rökum á afar sannfærandi hátt og að mínu mati eru það aðeins ýmis
smáatriði í túlkunum og útfærsla á þeim sem kunna að orka tvímælis. Það
má til að mynda spyrja hvort munurinn á útópísku og demónsku frásagn-
arsniði liggi ekki þegar allt kemur til alls í farsælum eða sorglegum endi?
Þriðja frásagnarsniðið er síðan eins konar samruni þeirra; endirinn er í eðli
sínu ósigur fyrir söguhetjur, en með göfgun tilfinninga sinna rísa þær upp
yfir hann og eru a. m. k. móralskir sigurvegarar. Ef þessi einföldun stæðist
væri hugsanlegt að setja kenninguna fram á miklu einfaldari og hnitmiðaðri
máta. Svo forsendur Matthíasar séu ræddar frekar, þá gætu menn einnig
gert athugasemdir við þá túlkun höfundar að ástin sé svo mikil ógnun við
samfélagskerfið sem hann vill vera láta.
Meðal þess sem Matthías bendir á er að nýjar hugmyndir í trúarlegum
efnum finna sér einkum farveg í prósaskáldskap. Sé þetta haft í huga, sem
og að íslenskt þjóðfélag hafði allt frá siðaskiptum einkennst af fádæma
kyrrstöðu og íhaldssemi í trúmálum, þá er hér komin skýring á því hvers
vegna íslenska raunsæið einkennist fyrst og síðast af prestahatri. Um leið