Skírnir - 01.09.1987, Síða 41
SKÍRNIR
SANNFRÆÐI FORNSAGNANNA
247
sögur að mikið er um bein orðaskipti, en bardaginn er skak eitt og
skærur líkt og gerist í samtíðarsögum, og falla aðeins tveir menn, en
hinn þriðji læst af sárum eftir bardagann.15
5. Lýsingar staðhátta. Erfiðlega gengur mönnum að stilla sig um
að trúa sögum ef þar er farið rétt með staðháttu. Menn ganga eftir
götunni í Berserkjahrauni sem frá er sagt í Eyrbyggju - og þá þurfa
þeir ekki frekari vitna við, sagan hlýtur að vera sönn. En í rauninni
sannar þetta ekkert annað en það að söguritarinn hefur einnig
þekkt þessa ruddu götu í gegnum hraunið. „Yfirleitt hafa menn
blandað staðalýsingum og sannindum allt of mikið saman,“ segir
Sigurður Nordal.
Kunnugleiki um staði getur aldrei staðfest sannindi frásagnar. En hirðu-
leysi um réttar lýsingar staða, jafnvel á næstu grösum við heimkynni höf-
undanna, getur stundum bent til þess, hversu nákvæmni lá þeim í léttu
rúmi.16
En þótt lýsingar sögu stangist við staðháttu þarf það ekki að vera
nein sönnun fyrir því að sagan fari með rangt mál að öllu leyti.
Sjaldnast mun þetta gert af ásettu ráði heldur af því að höfundur
hefur verið ókunnugur á söguslóðum. En allt um það gat hann
heyrt sanna sögu hjá heimildarmanni úr fjarlægu héraði, þótt síðan
vefðist fyrir honum að skipa öllu rétt niður í fjarskanum. Og í
lengstu lög reyna síðan sagna-trúmenn að koma öllu heim og
saman, svo sem sjá má til dæmis á ýmsum tilfyndnum skýringum
á „dalnum í hvolinum" í Njálu.
6. Munnmæli og sannindi. I umfjöllun um sögurnar blanda menn
stundum saman munnmælum og sannindum eins og allt væri eitt.
Ef rituð saga styðjist við frásagnir hljóti hún að vera sönn; og aftur
á móti, ef sagan dæmist vera ósönn þá sé hún skáldskapur einhvers
rithöfundar á 13. eða 14. öld. Sigurður Nordal segir að það þurfi
vitanlega ekki að vera „að líkindin fyrir því, að efni sögu sé sótt í
munnmæli, sé því minni sem hún er óáreiðanlegri“. „Alþýðlegur
fróðleikur getur verið brenglaður á margan hátt og jafnvel að mestu
leyti tilbúinn (sbr. Fornaldarsögur).“ Þó vill hann ekki hafa svo
mikið „vantraust á ráðvendni hinna austfirzku sagnamanna, að
væna þá um að hafa búið til þau meginatriði Fírafnkötlu, sem [...]
aldrei hafa getað gerzt“.17 Samkvæmt því notar hann fullum fetum