Skírnir - 01.09.1987, Side 119
SKÍRNIR TILVISTARSTEFNAN OG NORDAL
325
indum skotið okkur á bak við ótvíræð og örugg kenningakerfi,
hvað þá „sannanir“ sem virðast gegna því hlutverki að sannfæra
fólk svo rækilega að trúin sjálf hættir að skipta máli. Mál trúarinnar
snýst ekki nema að óverulegu leyti um staðreyndir eða það sem við
fáum sannreynt eftir leiðum reynslu og rökréttrar hugsunar. Trúin
er hin yfirskilvitlega vídd mannlegrar hugsunar og sjálf tilvistin,
hin mennska tilvist, er yfirskilvitleg: hún verður ekki rakin til neins
annars, ekki leyst upp í röð náttúrulegra orsaka og afleiðinga, ekki
skýrð í ljósi þess sem gerist í efnisheiminum. Hún er í eðli sínu rök-
laus, án allrar hlutlægrar festu, og þó á hún sér stað í heiminum sem
okkur er varpað inn í eins og til að bera vitni um það undraverk sem
hann er. Þess vegna lifum við í trú, hverju svo sem við trúum eða
trúum ekki. Trúin er hlutskipti okkar og þess vegna einnig vantrú-
in. Jafnvel hjátrúin hefur sína stöðu og sinn rétt.19
Sigurður var trúmaður á sinn hátt.20 „Lífið er brot. Ef til vill
verður það heild - hinum megin“, segir hann á einum stað (LD, s.
185). Ein höfuðrök hans eru þau að það sé þroskavænlegra fyrir
menn að líta á þetta líf sem undirbúning fyrir annað líf en að öllu
ljúki með hinum jarðneska dauða, og skiptir þá í sjálfu sér engu
hvort það reynist svo veruleiki eða ekki. Onnur höfuðrök hans
tengjast hinni andlegu reynslu sem ég mun síðar víkja að. En þessi
rök skipta hér ekki aðalmáli, heldur sú ofuráhersla sem Sigurður
leggur á trúna sjálfa, þýðingu hennar og gildi. Sú staðreynd að
menn komast ekki hjá trú, lifa í einhverri trú eða vantrú, er það sem
sköpum skiptir til skilnings á tilvistinni. Að ætla sér að skjóta sér
undan þessari staðreynd er ekki annað en ábyrgðarlaus óheilindi.
Líf og danði er í þessum skilning sannkallað trúvarnarrit. „Sá, sem
ekki vill reyna að seilast upp fyrir sig, hlýtur að taka niður fyrir sig.
Og sannleikurinn, sem á að gera okkur frjálsa (að svo miklu leyti
sem um mannlegt frelsi getur nokkurn tíma verið að ræða), er hin
djarfasta, háleitasta og heimtufrekasta tilgáta, sem við getum kom-
ið auga á til þess að lifa eftir og láta það sérstæðasta í eðli okkar vaxa
og dafna.“ (LD, s. 195)
Það er margt sem stendur í veginum fyrir því að að menn ástundi
trú sína og yfirvegi. Eitt er að tilvistarhugsunin sjálf verður aldrei
negld niður með sama hætti og sú hugsun sem er bundin náttúr-
unni eða hinu yfirnáttúrulega. Tilvistin sjálf er yfirskilvitleg í þeim