Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 156
362
SKÍRNIR
JÓN Þ. ÞÓR
uð væru til gæslu í Norðursjó, á Islandsmið. Nærvera þeirra þar kæmi
dönskum yfirvöldum að miklu haldi við að hindra deilur um fiskveiðirétt-
indi eða greiða úr þeim, og reyndar hefði ríkisstjórnin ekki þurft að hafa af-
skipti af neinni siíkri deilu eftir að Frakkar tóku að hafa þennan hátt á.
Frönsku skipin kvað hann koma til Kaupmannahafnar á heimleið frá Is-
landi á ári hverju og gætu Frakkar og Danir þá skipst á gagnlegum upplýs-
ingum og þakkað hvor öðrum fyrir hjálpina. Reedtz Thott spurði, hvort
breska ríkisstjórnin vildi ekki fara að dæmi Frakka og senda eigin skip til
þeirra svæða, sem breskir fiskimenn sæktu mikið til. Kvað hann Dani
myndu fagna því og taldi að það gæti auðveldað þær tilraunir, sem gerðar
yrðu til að koma fram breytingum á landhelgislögunum.11
Svo mörg voru þau orð, og er ljóst, að enn sem komið var, voru
dönsk yfirvöld hikandi við að framfylgja landhelgislögunum frá
1894.
Breska utanríkisráðuneytið sendi flotamálaráðuneytinu bréf
Scotts 2. ágúst 1895 og spurðist jafnframt fyrir um, hvort flotinn
gæti sent skip til Islands. I bréfi utanríkisráðuneytisins var þess
getið, að því hefði nýlega borist bréf frá breska ræðismanninum í
Reykjavík, þar sem framkvæmd laganna væri lýst. Þar kæmi fram,
að Danir hefðu sent gangmikið beitiskip, Hejmdal, til landhelgis-
gæslu við ísland og í lok júní hefði það tekið fjóra breska togara og
farið með þá til Seyðisfjarðar, þar sem skipstjórarnir hefðu verið
sektaðir. Þegar Hejmdal kom til Reykjavíkur um miðjan júlí
kvaðst ræðismaðurinn hafa farið um borð og hitt skipherrann að
máli. Hefði hann fullyrt, að hann hefði einungis tekið þá togara,
sem voru að veiðum innan landhelgi, en látið nægja að vísa þeim út
fyrir, sem voru á siglingu innan landhelgi með botnvörpu innan-
borðs. Niðurstaða utanríkisráðuneytisins var sú, að Bretar gætu
haft mikinn ávinning („real advantage“) af því að hafa breskt beiti-
skip á miðunum við Island.12
Þegar hér var komið, var skammt eftir af veiðitímabili bresku
togaranna við Island þetta ár, og í uppkasti af bréfi til utanríkis-
ráðuneytisins, dagsettu 21. ágúst 1895, sagði embættismaður í
flotamálaráðuneytinu, að ekki væri talin ástæða til að hafast frekar
að það sem eftir lifði ársins. Yfirmenn flotans myndu hins vegar
fúsir til að taka málið til athugunar á vori komanda, þótt flotinn
ætti annars erfitt með að sjá af skipum til nýrra verkefna.13
Meira aðhöfðust bresk stjórnvöld ekki í málinu árið 1895, að því