Skírnir - 01.09.1987, Side 98
304 KRISTJÁN ÁRNASON SKÍRNIR
sem þeir ættu að sinna í lífinu, hvort heldur það var skilið sem það
að breyta heiminum eins og Marx hvatti til eða móta sitt eigið líf í
sannleika sem Kierkegaard taldi mestu skipta. Að sögn Kierke-
gaards var Hegel fremur prófessor í heimspeki en „fílósófos“ í
grískum skilningi. Og báðir vilja þeir Marx og Kierkegaard draga
heimspekina ofan frá himni hinna hreinu hugtaka og tengja hana
lífi og aðstæðum raunverulegra manna. En þar sem Marx skoðaði
þetta líf út frá hugtakinu framleiðsla og í þjóðfélagslegu samhengi,
þá beitir Kierkegaard gjarnan hugtakinu existens eða tilvera til að
einkenna stöðu mannsins í heiminum og rekur það sem fleyg milli
þeirrar einingar hugsunar og veru, sem sett var í heimspeki Hegels,
sem og þeirrar sáttar og miðlunar andstæðnanna, hins innra og hins
ytra, hins mögulega og hins raunverulega, sem þar var boðuð. I til-
verunni eru andstæðurnar ósættar og einstaklingurinn í tvísýnni
valaðstöðu, þar sem angistin er á næsta leiti, en hún birtir okkur
framandlega stöðu okkar og ábyrgð fyrir sjálfum okkur sem ein-
stökum, og þá stoðar okkur lítt, þótt einhverjum hugsuði hafi tek-
ist að láta allar andstæður ganga upp í heimspekikerfi.
Að hugsa sér veruleikann sem samfellt og lokað kerfi er að dómi
Kierkegaards óhugsandi nema frá sjónarhóli einhvers sem stæði
utan við hann eða ofan við hann, en er ekki á færi þess sem er sjálfur
í tilveru og getur því ekki lokað kerfinu. Með því að líta á alla hluti
sem liðna fer söguspekingurinn á endanum að líta á sjálfan sig utan
frá eins og hann sé framliðinn, og með því að líta um öxl ánetjast
hann þeirri skynvillu, að það sem gerzt hefur hafi gerzt óhjá-
kvæmilega, líkt og mönnum sýnast úr fjarska ferkantaðir hlutir
kringlóttir, en hið liðna var í rauninni aldrei óhjákvæmilegt fremur
en það sem á eftir að gerast er það. Hið sögulega sjónarmið breytir
öllum mælikvörðum, og því að lifa eftir heimspeki Hegels líkti
Kierkegaard við það að ætla sér að ferðast um Danmörk eftir korti
af öllum heiminum. Söguspekin getur aldrei orðið annað en nálgun
eða „approximation“ við raunveruleikann, háð duttlungum og
fordómum söguspekingsins, og þegar hún dregur fram afstæði
sögulegra skeiða og flokkar þau niður eftir sérkennum, er hún að
fást við eitthvað óverulegt og sést yfir þann meginkjarna mannlífs-
ins sem verður hinn sami á öllum tímaskeiðum. Heimspekikerfi
Hegels verður því að dómi Kierkegaards hugsmíð, sem falsar raun-