Skírnir - 01.04.1988, Síða 216
202
PÉTUR GUNNARSSON
SKÍRNIR
draga lesandann gegn um heilmikið pensúm af goðafræði. Stundum ork-
uðu hofgyðjukaflarnir á mig eins og óskylt efni, já truflun í æsilegri sögu.
Stundum eins og fyrir mistök í bókbandi hefðu bundist saman arkir úr
tveimur ólíkum verkum: nútímaskáldsögu og vel stíluðu textaúrvali í
goðafræði. Mér fór eins og fleiri lesendum Gunnlaðarsögu að ég tók að
sleppa „goðafræðinni" og lesa „söguna“ ótruflaða, með þeim ásetningi að
lesa goðafræðina síðar í málið. En jafnvel eftir yfirlegu er ég ekki sannfærð-
ur um að hofgyðjukaflarnir eigi hér heima. Þeir halda áfram að birtast mér
sem ljóðrænir minnispunktar fyrir skáldsögu.
Og það eru fleiri formspurningar sem vakna við lesturinn. Ytri tími
sögunnar er flugferðin frá Kastrúp til Keflavíkur, upprifjun í huga konunn-
ar á leið til mannsins. I þrígang erum við minnt á veru konunnar í vélinni
sem lýkur með ávarpi flugfreyju: Góðir farþegar... En hefði sagan þá ekki
þurft að reiðast fram í hugsanaflæði, hugrenningum sögumanns í stað
þeirrar skýrslukenndu frásagnar sem Gunnlaðarsaga hneigist til?
Og með flugvélabúning sögunnar í huga verða hofgyðjuinnskotin enn
fjær lagi. Hvað eftir annað þarf lesandinn að klóra sér í kollinum og marg-
lesa efni sem stendur alveg fyrir utan söguþráðinn, í þeim einum tilgangi að
vita hver er að tala, hvað á við hvern, hvað snýr upp og hvað niður. Er Dís
að miðla móðurinni reynslu sinni í fyrirlestraformi þar sem hún er stödd í
fangaklefa? Og hvernig rata þeir lestrar inn í upprifjun móðurinnar í flug-
vélinni?
Nú er skáldsögulesandi áreiðanlega það fyrirbæri sem valtast er að biðja
um greiða, hvað þá að setja honum fyrir heimanám. Hér er einfaldlega
komið að hinum heimsfrægu takmörkunum skáldsögunnar. Og hér er líka
sístæður vandi höfundar í þá veru hvernig megi miðla efni. Öll þau dýr-
mæti sem rekur á fjörur hans í efnisöflun og úrvinnslu - hvað nær hann að
ferja mikið af því yfir til lesandans? Hér eru í gildi reglur sem eru ábyggi-
lega ennþá strangari en reglur flugfélaganna um yfirvigt.
Það er spurning hvort Svava er ekki með of mikinn handfarangur þar
sem hofgyðjuefnið er. Aftur á móti rís bókin iðulega hæst þegar tekst að
kveikja saman goðsögu og skáldsögu. Dæmi um heppnað samtal þessara
tveggja er fundur frúarinnar við fólkið á kránni, kráin þar sem mjöður nú-
tímans er framreiddur, ferð sögumanns um eiturlyfjahelvíti stórborgarinn-
ar þar sem goðsaga og skáldsaga haldast í hendur og vefjast saman. Há-
punktur þessarar samvinnu er ef til vill Tjernobylglæpurinn og þau ragna-
rök sem svífa yfir vötnum í kjölfarið og árétta þrot hámarksgróða-
hyggjunnar.
Það er athyglisvert, að þrátt fyrir alvarleg tíðindi bókarinnar og umfjöll-
unarefni sem eru frekar á fótinn, þá er Gunnlaðarsaga full af húmor. Þar
skiptir sköpum hin frábæra Anna sem er svo gagnger andstæða tildurfrúar-
innar í upphafi bókar. Anna gefur sögumanni bæði jarðsamband og það
sem meira er um vert: vellulausa mannlega hlýju. Og yfirleitt magnar öll sú
þjóð sem gistir krána verkið lífi, kannski af því að hún hefur til að bera