Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 33
Einar Sigurbjörnsson, Háskóla íslands
Davíðssálmar í Sálmabók Guðbrands
Þriðji hluti Sálmabókar Guðbrands frá árinu 1589 hefur að geyma sálma
sem eru ortir út frá sálmasafni Biblíunnar sem löngum var kennt við Davíð
konung og nefnt Davíðssálmar eða Saltarinn. Þessi hluti Sálmabókarinnar
ber yfirskriftina: „Sá þriðji partur þessarar Sálmabókar hefur að halda
útvalda sálma þess kónglega spámanns Davíðs útlagða og snúna í andlega
söngva og vísur."1 Með því að hafa sérstakan hluta sem geymdi Davíðssálma
fylgir Guðbrandur fyrstu dönsku sálmabókunum, t.d. þeirri sem gefin var
út 1553, en hún var að líkindum endurútgáfa af Sálmabók Hans Tausens
frá 1544. I henni var sérstakur kafli með Davíðssálmum2 en í sálmabókinni
sem Hans Thomisson gaf út 1569 og var opinber Sálmabók dansk-norska
ríkisins til 1699 var sálmum út frá Davíðssálmum dreift innan um aðra
sálma bókarinnar í stað þess að þeir mynduðu sérstakan hluta. Nokkrir
sálmar út frá Davíðssálmum höfðu áður komið í Sálmakveri Marteins
Einarssonar frá 1555.3
Flestir þeirra Davíðssálma sem voru í Sálmabók Guðbrands 1589
héldust í þeim sálmabókum sem gefnar voru út á Hólum fram að útgáfu
Sálmabókar 1772. Nokkrir Davíðssálmar úr Sálmabókinni, auk fáeinna
nýrra, voru teknir upp í Grallarann 1594 og var þeim bætt við í 2.
útgáfu Sálmabókar Guðbrands 1619. Síðasta útgáfa Sálmabókarinnar á
Hólum var 1772. Það ár kom Sálmabókin út í tveimur hlutum og nefndist
fyrri hluti hennar Flokkabók sem geymir engan Davíðssálm. Síðari hlutinn
nefndist Höfuðgreinabók og þar héldust nokkrir Davíðssálmar úr Sálmabók
Guðbrands og fáeinum nýjum var bætt við en þeim dreift innan um aðra
kafla bókarinnar.
1 í þessari grein er orðið Davíðssálmar notað bæði um sálmasafn Biblíunnar og sálma orta út frá
þeim í sálmabókum.
2 Um danska sálmasögu, sjá S. Widding, 1933, Dartsk messe, tide- og psalmesang, bd. 1-2,
Kobenhavn; A. Malling, 1962-1972, Dansk salmehistorie 1-7, Kobenhavn og Jorgen Kjærgaard,
2003, Salmehándbog I, Köbenhavn, s. 64-65.
3 Um sálma í fyrstu íslensku sálmabókunum, sjá Páll Eggert Ólason, 1924, Upptök sálma og
sálmaDga í lútherskum sið á fslandi. Fylgir Árbók Háskóla íslands 1924. Reykjavík.
31