Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 79
Bail bendir á að yfirleitt sé ekki unnt að aldursgreina sálmana með neinni
vissu og það sé ómögulegt að rekja þá aftur til ákveðinna aðstæðna sem
hafi skapað þá.19 Sálmarnir höfði til ímyndunaraflsins og í þessu tilfelli tjái
sálmurinn reynsluna af ofbeldi.
Einnig bendir hún á muninn sem er á táknrænum skilningi á borginni
annars vegar og óbyggðinni hins vegar. Þessa táknrænu staði megi einnig
skilja þannig að borgin sé líkami konunnar. Sú kona, sem gert er ráð fyrir
að tali í sálminum, treystir Guði og hlýtur lækningu við þeim glæpum sem
framdir hafa verið gagnvart henni og eignast nýja sjálfsmynd andspænis
fjandmönnunum með því að tjá sig og biðja til Guðs.
Yvonne Sophie Thöne hefur nýlega skerpt þessa áherslu. I grein sinni
„Stay in the Desert, Prowl in the City“20 greinir hún textann með aðferðum
frásagnarfræði (e. narratology). A sviði frásagnarinnar eru sögupersónur
hennar, tími og rúm mikilvægustu greiningarhugtökin. Tvennt skiptir máli
þegar kemur að tíma: þegar horft er til baka í v. 15, aftur til gleðiríkrar
fortíðar (sbr. í Slm 42 og 43), og svo þegar horft er fram á veginn, til gjörða
Guðs í framtíðinni. Meira máli í greiningu Thöne skiptir þó rýmið. Það
einkennist í sálminum af andstæðum, ekki síst andstæðunum milli borgar
og eyðimarkar sem aftur endurspegla andstæðar persónur í sálminum.
Aðalpersónunni er stillt upp gegn óvinunum, en Guð er stoð hennar og
stytta. Thöne telur að í niðurlagi sálmsins megi greina rödd sögumannsins
sem kvenkyns, þar eð honum er líkt við sigraða borg, sem jafnan er
persónugerð sem kona. A grundvelli kenninga Ulrike Bail, telur Thöne því
að færa megi rök fyrir því að unnt sé að lesa sálminn sem bæn kynferðislega
svívirtrar konu.
19 Samuel Terrien (1911-2002) var einn þeirra sálmafræðinga sem ætíð leitaðist við að aldursgreina
sálmana. Hann lifði það ekki að sjá hið stóra skýringarit sitt við sálmana koma úr prentun (2003).
I því áhrifamikla riti heldur hann því fram að Slm 55 kunni að eigi rætur sínar meðal útlaga frá
Júda í Mesópótamíu. Nákvæmur aldur sé óviss, en áberandi samsvörun orða og hugsana sálmsins
við Jeremía styðji þá tilgátu, sbr. óskin að flýja út í í óbyggðirnar (Slm 55.7-8 og Jer 9.1), burt
frá borg ofbeldis og svika (Slm 55.10-12; Jer 6.6-7; 9.5), hin ógnvekjandi uppgötvun tvöfeldni
vinarins (Slm 55.13-15 og Jer 10.19). H-J. Kraus (1918-2000) taldi líklegt að sálmurinn
væri samsettur úr tveimur upphaflega sjálfstæðum hlutum, sem ættu það þó sameiginlegt að
fyrrverandi vinur hefði gerst óvinur. Hann sagði aldursgreininguna erfiða en tók undir með
W.O.E. Osterley um að „stíll og tungutak bendir til tímans eftir útlegð fremur en fyrir útlegð“.
Sjá H-J. Kraus, Psalms 1-59. A Commentary, Minneapolis: Augsburg Publishing House, 1988,
s. 520.
20 Thöne, Yvonne Sophie, „Stay in the Desert, Prowl in the City. A Narratological Analysis of
Psalm 55“, í Mótun menningar / Shaping Culture. Afmælisrit til heiðurs Gunnlaugi A. Jónssyni
sextugum, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2012, s. 55-74.