Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Page 92
annað og meira en forvitnilegur viðauki, henni er teflt fram í ritskýringunni
sjálfri.
Það vill svo til að í tveimur fræðilegum greinum frá árunum 1998 og
2012, sem báðar eru skrifaðar af konum,41 hefur því verið haldið fram
gegn aldalangri túlkunarhefð sálmsins að sálmurinn kunni að endurspegla
reynslu konu sem brotið hafi verið gegn og hugsanlegt sé að hún sé jafnvel
höfundur sálmsins.
í þessari grein er tekið undir þetta sjónarmið sem til þessa hefur átt svo
litlu fylgi að fagna og bætt við röksemdum því til stuðnings. Meðal helstu
röksemda fyrir þessari niðurstöðu skulu þessar nefndar:
Áhugaverðar og sláandi hliðstæður eru í sálminum milli borgarinnar,
sem vettvangs brotsins og þess sem brotið hefur verið á. Heiti borga eru
jafnan kvenkyns í hebresku og þær oft persónugerðar sem konur. Borgin og
aðalpersóna sálmsins eru báðar fórnarlömb og það veitir vísbendingu um að
Ijóðmælandinn í sálminn endurspegli reynslu konu.
Vakin er athygli á því að hebreska sögnin jada er notuð yfir vináttusam-
band einstaklinganna í sálminum. Sú sögn er gjarnan notuð yfir mjög náið
persónulegt vináttusamband, sem og kynlíf karls og konu. Það gæti bent til
þess að svo sé einnig hér og að kona sé fórnarlamb þess sem áður hafði verið
ástvinur hennar og brotið því hugsanlega af kynferðislegum toga.
Höfundur vekur og athygli á því að brotinu er líkt við sáttmálsbrot og
ræðir í því sambandi merkingu þess þýðingarmikla hugtaks (hebr. berit).
Bent er á sáttmála milli einstaklinga þar sem það er jafnan sterkari aðilinn
sem á frumkvæðið að sáttmálsgerðinni og minnt er á að Hósea spámaður dró
upp hliðstæðu milli sáttmála Guðs og þjóðarinnar og síns eigin hjónabands.
Bent er á að dúfan, sem gegnir lykilhlutverki í sálminum, sé í
Ljóðaljóðunum í hlutverki boðbera ástarinnar. I ljósi meginefnis sálmsins
sýnist það ekki fjarlægt að dúfunni sé teflt fram sem boðbera vonar og ástar
í skarpri mótsögn við ofbeldið. Það sé og ákveðin vísbending um að þarna
sé verið að lýsa ástarsambandi sem hafi beðið skipbrot.
Minnt er á sálma sem eignaðir eru konum í Gamla testamentinu og
bækur sem kenndar eru við þær. Það ætti því ekki að þurfa að koma á óvart
að einhver sálma Saltarans endurspegli reynslu konu og sé jafnvel saminn
af henni.
41 Höfundur þessarar greinar hafði raunar talað fyrir þessari minnihlutatúlkun þegar árið 2000. Sjá
Gunnlaugur A. Jónsson, 2000, ívitnuð grein.
90