Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 102
það væru prestar og guðfræðikennarar við Háskóla íslands, skuldbundnir
að halda fast við kenningar evangelísk-lúthersku þjóðkirkjunnar meðan
tengsl ríkis og kirkju héldust á grundvelli 45. gr. stjórnarskrárinnar.30 Einar
Arnórsson (1880-1955) lagaprófessor og síðar hæstaréttardómari gaf aftur
á móti út handbók um íslenskan kirkjurétt 1912. í 7. gr. (í 3. kafla) fjallaði
hann um trúarrit þjóðkirkjunnar og þýðingu þeirra. Þar segir að játningarrit
kirkjunnar eigi „eftir tilgangi löggjafans að vera ábyggileg og ófrávíkjanleg
skýring á trúarlærdómum heilagrar ritningar“ og að löggjafmn hafi þannig
„löggilt ákveðnar biblíuskýringar, líkt ogþegar menn hafa sett ný lög um, að svo
eða svo bœri að skilja önnur lög [skál. EA].31 Þá segir þar og : „Játuð trú á
sannindi trúarlærdóma rita þessara er skilyrði til þess, að maður geti fengið
og haldið kennimannsstöðu í þjóðkirkjunni ,..“.32
Vissulega skiptir máli að rúmu hálfu ári eftir að þessi túlkun birtist var Jón
Helgason settur biskup landsins og tók við embættinu að fullu árið eftir.
Þar með var hann orðinn helsti forvígismaður íslensku þjóðkirkjunnar og
skapaði það guðfræðistefnu hans áframhaldandi sóknarfæri.33
Málið gegn Arboe Rasmussen
Forsaga dómsmálsins gegn N. P. Arboe Rasmussen er að 25. júní 1908 hafði
hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu í svokölluðu Westenholz-máli að
únítarafélagið Det frie Kirkesamfund aðhylltist og útbreiddi kenningu sem í
grundvallaratriðum bryti í bága við kenningu þjóðkirkjunnar.34 Dómurinn
30 Gísli kvað þá kennimenn sem viku frá kenningargrunninum — en það taldi hann Jón Helgason
og fleiri guðfræðikennara gera — ekki geta haldið áfram að gegna kennimannsembætti. Það gætu
þeir ekki varið gagnvart lögunum, kirkjunni né sjálfum sér. Áleit hann að kenningarfrelsi fengist
aðeins með aðskilnaði ríkis og kirkju og væri þar að finna ein sterkustu rökin fyrir aðskilnaði.
Gísli Sveinsson, „Trúfrelsi og kenningarfrelsi", bls. 206-208.
31 Einar Arnórsson, fslenzkur kirkjuréttur, bls. 36.
32 Sama rit, bls. 38.
33 Þróun mála í þessu efni var svipuð hér á landi og í Svíþjóð. Þar varð Nathan Söderblom (1866-
1931) erkibiskup 1914. Þar með festist frjálsfynd guðfræði í sessi þar í landi og náði friðsamlegri
sambúð við meginstrauminn í guðfræði kirkjunnar. Ingmar Brohed, Sveriges kyrkohistoria 8. b.,
ritstj. Lennart Tegborg, Stokkhólmi: Verbum, 2005, bls. 22.
34 Mary Bess Westenholz (1857-1947) gerðist snemma únítari og stofnaði síðar félagið ásamt
fleirum. Félagsmenn töldu sig vera kristna mótmælendur. Upphaf málsins var að yfirvöld litu
svo á að Westenholz væri með aðild sinni að félaginu fallin út úr þjóðkirkjunni. Höfðaði hún
mál sem gekk henni í vil í héraði en var skotið til hæstaréttar. Komst hann að þeirri niðurstöðu
að félagið væri sérstakt trúfélag sem í grundvallaratriðum gengi gegn þjóðkirkjunni í starfi sínu
og bæri að líta svo á að þeir sem gengju til liðs við það hefðu þar með sagt sig úr þjóðkirkjunni.
Kristine Garde, To laresager, bls. 21, 39—42, 124-136.
100