Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 103
sýndi ótvírætt að hæstiréttur dró ekki í efa að hann væri til þess bær til að
fjalla um kenningarleg mál.35
Á árunum 1909 og 1910, þ.e. eftir dóm hæstaréttar yfir Det frie
Kirkesamfund, birti Arboe Rasmussen nokkrar greinar í Protestantiske
Tidende, tímariti sem félagið gaf út. Þar með hafði þjónandi prestur í
þjóðkirkjunni sýnt samstöðu með félagsskap sem ekki rúmaðist innan raða
hennar og boðaði raunar kenningu sem taldist í andstöðu við játningar
hennar að mati hæstaréttar. Kvaðst Rasmussen síðar hafa viljað þjóna sem
tengiliður milli þjóðkirkjunnar og félagsins og stuðla þannig að því að
félagið hyrfi aftur í faðm kirkjunnar.36 Engin ástæða er til að draga þann
ásetning hans í efa. Um trúverðugleika skýringarinnar verður þó ekki dæmt
án athugunar á greinunum sjálfum en til þess hefur ekki gefist tækifæri nú
enda skiptir það ekki máli fyrir meginviðfangsefni þessarar greinar.
Þá dregur það úr gildi þessarar yfirlýsingar Arboes Rasmussen að málið
gegn honum hófst í kjölfar fyrirlestrar sem hann hélt í Studenterforeningen
í Kaupmannahöfn í desember 1910. Þar lýsti hann því yfir að hann væri
undir sterkum áhrifum frá Adolf von Harnack (1851-1930) sem var einn
af upphafsmönnum frjálslyndrar guðfræði um aldamótin 1900, m.a. með
aðgreiningu sinni á boðskap Nýja testamentisins í „tvö fagnaðarerindi“.37
Með rveimur fagnaðarerindum er átt við aðgreiningu á milli upprunalegs og
35 Sama rit, bls. 21, nmgr. 4.
36 Sama rit, bls. 21.
37 N. P. Arboe Rasmussen, „Dogmekirken — og vejen frem“, To foredrag, Kaupmannahöfn:
Vilh. Tryde, 1911, bls. 1-12, hér bls. 1, nmgr. *). f fyrirlestrinum greindi Arboe Rasmussen
milli þjóðkirkjunnar sem væri „endnu uopnaaet Ideal“ og dogmu-kirkjunnar sem væri „den
haandgribelige Virkelighed" en hana taldi hann, í anda Adolfs von Harnack, hafa orðið til á 4.
öld er merking hugtaksins dogme hefði breyst úr því að vera mælisnúra á kristilegt líf yfir í að
merkja normatívar kristilegar kennisetningar (sama rit, bls. 3). Rasmussen taldi að ætti að hylla
Krist sem konung væri það ekki gert með því að stilla upp mynd hans inni í kirkju heldur með
því að „hans Tanker blive en Magt ude i Verden" (sama rit, bls. 7). Hann leit einnig svo á að
tímabil efnishyggju væri að baki en tímabil er aðhylltist hugsjónir (d. Idealer — t.d. réttlæti,
frið, frelsi og bræðralag) væri framundan. Hann efaðist um að kirkjur og trúfélög gætu þjónað
sem sameiningaröfl við þær aðstæður en vonaði að fagnaðarerindið gæti gert það. Þá benti hann
á Lev Tolstoj sem mikilvæga fyrirmynd í því að boða innilegt, persónulegt samband við Guð
í stað hins ytra skipulags kirkjunnar og eftirvæntingu eftir heimi þar sem réttlæti ríkti en það
væri í raun ímynd Guðs ríkisins (sama rit, bls. 7-9). Helsta kenningargagnrýnin sem fram kom
hjá Arboe Rasmussen var að kenninguna um „dauða Guðs“ væri ekki mögulegt að samræma
eingyðistrú (sama rit, bls. 3—4). Loks tók hann undir þá tillögu, sem nokkuð hafði verið hreyft,
að Faðir vorið yrði eina „dogma“ kirkjunnar (sama rit, bls. 10). í eftirmála fyrirlestrarins benti
Rasmussen loks á aðskilnað kirkjunnar í svissnesku kantónunni Basel frá ríkinu 1. apríl 1911 og
höfuðþættina í kirkjuskipan hinnar frjálsu kirkju (sama rit, bls. 11-12).
101