Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 126
Jesú um guðsríkið. Þeir brugðust hér við breyttri heimsmynd og nýttu sér
auk þess kenningu Kants um að engar beinar samsvaranir væri að finna á
milli þekkingar á veröldinni og á Guði.21 Trúin væri veruleiki sem tengdist
fyrst og fremst hinni siðferðilegu skynsemi og ríki siðarins. Vandinn sem
þessir guðfræðingar stóðu aftur móti frammi fyrir var að hlutverk trúarinnar
verður ekki að öllu leyti fellt undir siðferði.
jMbrecht Ritschl og Wilhelm Herrmann leituðust við að leysa þann
vanda með því að einskorða siðferðið við persónu mannsins og sjálfræði
einstaklingsins. Siðferðið verður samkvæmt þeim að byggjast á persónunni
og vera henni eiginlegt. Siðfræði Kants þurfi því á viðbót að halda, ef svo
má að orði komast, og sé hún opinberunin í Jesú og boðun hans. Hana
meðtekur maðurinn í trú sem staðfestir sjálf mannsins í Guði. í sambandinu
við Guð er sjálfræði mannsins ekki einungis tryggt, heldur er manninum
veittur kraftur og honum mörkuð stefna til að standa undir kröfu siða-
boðsins þannig að hin siðræna persóna öðlast hald í trúnni.22 Þessi afstaða
gerði þessum guðfræðingum nú kleift að laga kristnina að hugmyndum
samtímans um stöðuga þróun og framfarir mannkynsins í skóla lífsins.
Guðfræðingurinn Richard Rothe (1799-1867) hafði þegar lagt grunninn
að þessari nálgun. Að mati Rothes sýnir vilji og verk Guðs sig fyrst í
vitund mannsins, en kemur síðan fram í hinum pólitíska veruleika, þ.e.a.s.
að í starfi og verki mannsins brýst guðsríkið fram og verður að veruleika
samfélagsins. Guðsmeðvitundin og guðsverk falla saman í lífi mannsins.
Rothe þróar hér áfram hugmynd Lúthers um manninn sem samverka-
mann Guðs og tekur það róttæka skref að gera verk Guðs og manns að
sama veruleika. í framsetningu Rothes er því tveggja ríkja kenningin leyst
af hólmi með kenningu um eitt ríki þar sem veraldlega sviðið yfirtekur
hið andlega. Þessa nálgun Rothes var auðvelt laga að þeirri afhelgun sem
einkenndi samfélagið í vaxandi mæli og því guðleysi sem hún virtist leiða
til að sumra mati. Rothe var gagnrýndur fyrir þessa kenningu sína um
sameiginlegan veruleika hins veraldlega og hins andlega. Menn bentu á
auðvelt væri að losa um hina guðfræðilega yfirbyggingu og láta kerfi Rothes
standa. Ef það væri gert kæmu fram líkar hugmyndir og samtímamenn hans
Ludwig Feuerbach (1804-1872), Bruno Bauer (1809-1882) og Karl Marx
21 Sigurjón Árni Eyjólfsson, Tilvist, trú ogtilgangur, Reykjavík, 2008, 95-106.
22 Gunther Wenz, Der Kulturprotestant, 27-32. Jón Helgason skýrir þetta sjónarmið og byggir þar
á Wilhelm Herrmann. Jón Helgason, Grundvöllurinn er Kristur, Reykjavík, 1915, 57-67.
124