Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 131
í siðbótinni haldist margar áherslur miðaldakirkjunnar. Ritningin fékk þá
stöðu sem kirkjan hafði sem hjálpræðisstofnum og var guðræði miðalda
skipt út fyrir biblíuræði. Ríki og kirkja mynda áfram eina heild33 en
í staðinn fyrir meinlæti klaustranna kemur meinlæti innan þessa heims
o.s.frv.34 Það er fyrst með komu upplýsingarinnar að einhyggja miðalda er
leyst af hólmi af fjölhyggju nútímans að mati Troeltsch.35
Engu að síður segir Troeltsch trú mótmælenda eiga óbeinan þátt í
þessari þróun. Þrátt fyrir tímabundna endurlífgun kirkjulegrar menningar
og áherslu á kristni sem einingarband samfélagsins í kjölfar siðbótar, hafi
trú mótmælenda grafið undan henni. Mótmælendur höfðu mun veikara
kirkjuskipulag en rómversk-kaþólskir og því hölluðu þeir sér að ríkisvaldinu
og studdust við hugmyndakerfi hvers samtíma sem reifaði eðli og hlutverk
þess. I hugmyndaheimi mótmælenda sé líka að finna þætti sem mjög auðvelt
hafi reynst að laga að þeim áherslum sem einkenni nútímann.
I þessu samhengi fjallar Troeltsch um hjónabandsskilning mótmælenda
og ber hann saman við það sem einkenni nútímann. Lúther hafnaði því
að hjónabandið væri sakramenti og réttmæti þess að hefja meinlætið yfir
það. Hann svipti þar með grundvellinum undan kenningunni um tvenns
konar siðgæðiskröfur annars vegar til leikmanna og hins vegar til starfs-
manna kirkjunnar. Meinlæti og skírlífi missa þannig sitt siðferðilega vægi í
guðfræðitúlkun Lúthers.
Hjónabandið og fjölskyldan varð þess í stað alfarið vettvangur náunga-
kærleika og góðra verka. Fyrir vikið er fjölskyldan nú metin sem mótunar-
stöð vinnusiðferðis og fyrirmynd samfélagsgerðarinnar. Einstaklingurinn er
þannig settur í forgrunn sem komi m.a. fram í því að skilnaðir séu leyfðir.
Ríkið er leyst úr forsjá kirkjunnar og fær sjálfstætt hlutverk. Vægi kirkju-
réttarins er brotið á bak aftur og hann tekinn inn í réttarkerfi ríkisvaldsins.
Samfélagið ber nú uppi menninguna og mótar ásamt kirkjunni öll helstu
viðmið þess og gildi.36
Hugmyndin um mannréttindi og samviskufrelsi er að mati Troeltsch
til staðar í ritum Lúthers, en helstu talsmenn hennar sé samt að finna í
röðum „vingltrúarmanna“ eða innan sértrúarhópa.37 Innan kalvínismans
33 Ernst Troeltsch, „Die Bedeutung des Protestantismus fur die moderne Welt“, 37 [237].
34 Ernst Troeltsch, „Die Bedeutung des Protestantismus fur die moderne Welt“, 42 [242].
35 Ernst Troeltsch, „Die Bedeutung des Protestantismus jur die moderne Welt", 45 [245].
36 Ernst Troeltsch, „Die Bedeutung des Protestantismus fur die moderne Welt“, 52-55 [250-258].
37 Ernst Troeltsch, „Die Bedeutung des Protestantismus fiir die moderne Welt“, 63 [262-263].
129