Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Page 138
ekki tekið að maðurinn eigi að hámarka afköst sín og færa sig til í starfi
til að ná því marki.66 Þróun vinnusiðferðisins hjá mótmælendum er því
að mati Webers önnur innan lúthersdóms en kalvínisma. I lúthersdómi
er til staðar sterk tilhneiging til dulúðar (lat. unio mystica) sem tengist
innilegu sambandi manns og Guðs í trú. Hún styðst við gildi orðsins eða
fagnaðarerindisins sem náðarmeðals, auk skírnar og altarissakramentis.67
Þar að auki er vægi tilfinninga í lúthersdómi mikið fyrir trúarlíf og trúar-
reynslu einstaklingsins. Innan kalvínisma er aftur á móti að finna meiri
áherslu á birtingarmynd trúarinnar í verkum og breytni manna að viðbættu
hlutverki safnaðarins í mótun samfélagsins. Þetta kemur fram í vægi þriðju
notkunar lögmálsins (lat. tertius usus legis) innan kalvínismans, sem er aftur
á móti lúthersdómi framandi. Ahersla á hið skipulagslega og hagnýta er
mikil innan kalvínismans. Það er eðlilegt að Weber telji sem svo að innan
hans sé frekar að finna þætti sem stuðluðu að mótun nútíma kapítalisma
en í lúthersdómnum.68 Undir lok greinarinnar ítrekar Weber, að hann sé
einungis að draga fram vissa trúarlega þætti í þessari þróun. Hann sé ekki
að móta altæka kenningu um uppruna kapítalismans.69
í annarri grein sinni hugar Weber að því vinnusiðferði sem kemur fram í
sértrúarhópum (þ. Sekt) meðal mótmælenda. í vinnusiðferði Lúthers er finna
þætti sem stuðluðu að því vinnusiðferði sem einkennir kapítalisma nútímans
en áhersla lúthersdóms á dulúð og kenninguna um skikkan skaparans (þ.
Ordnun) setja henni mörk. I trúarstefnu heittrúar eða píetisma kalvínskrar
hefðar meðal meþódista og púrítana eru þessar hindranir ekki til staðar.
Hjá þeim fær hið hagnýta og skynsamlega trúarlegan grundvöll. Á meðal
sértrúarhópa innan þessarar greinar kalvínismans þróast síðan sem hliðar-
afurð sú veruleikasýn sem getur af sér vinnusiðferði kapítalísks samfélags.
Hún smitaði síðan hægt og hægt út frá sér og mótaði loks alla samfélags-
gerðina. Rót þessarar áherslu vill Weber finna meðal fullorðinsskírenda á
tímum siðbótarinnar. Það sem einkennir þá er vægi hins siðræna fyrir líf
66 Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 102 [79]. Weber er í
greiningu sinni samstíga Troeltsch og sér í Lúther fulltrúa fyrir staðlaða samfélagsgerð. Þetta er
mynd sem frjálslynda guðfræðin gagnrýndi hefðbundna lútherska guðfræðinga fyrir að halda á
lofti. Henni er hægt að finna stað í skrifum Lúthers, en önnur ummæli hans mæla frekar gegn
slíkri túlkun. Nægir hér að minna á tveggja ríkja kenninguna sem í guðfræði Lúthers er ekki
staðlað heldur magnað fyrirbrigði.
67 Max Weber, Dieprotestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 164-165 [131-135].
68 Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 104 [81-82].
69 Max Weber, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 105 [83].
136