Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 157
upplifa skömm, ef marka má túlkun Williams. Einn þáttur í því er sá
að skömmin á sér einnig menningarlegar rætur. Langflestir einstaklingar
innhverfa ákveðnar siðferðilegar og menningarlegar mælistikur frá unga
aldri hvað varðar breytni af ýmsu tagi. Siðferði einstaklinga byggir á þessari
mælistiku ekki síður en persónulegum ótta um neikvæð viðbrögð við rangri
breytni. Ef sú væri ekki raunin, væri ekki hægt að tala um nein sameiginleg
siðferðileg viðmið innan ákveðinnar menningarheildar.36
Margt bendir til þess að skömmin sem siðferðileg tilfmning hafi þróast
um aldir með manninum og gegni mikilvægu hlutverki bæði fyrir einstak-
ling og samfélag. Skömmin á sér fleiri en eina birtingarmynd, hún getur
annars vegar verið jákvæð og hins vegar neikvæð. Þá er hún ýmist opin
eða dulin. Jafnframt er skömmin menningarbundin í þeirri merkingu að
hún tengist siðferði ákveðins samfélags eða menningarheildar sem þýðir þá
að það sem álitið er skammarlegt er afstætt og hugsanlega breytilegt milli
menningarheima og tíma. Ymislegt virðist geta kallað skammartilfmninguna
fram, bæði eigin breytni og breytni annarra. Fyrst og fremst er það þó eigin
reynsla, hugsanir og upplifanir. Skömmina má tengja bæði sjálfsvirðingu
einstaklingsins og samfélaginu: Ef neikvæð skömm setur klærnar í sjálfs-
virðingu einstaklings kemur það fram í neikvæðri breytni hans í samfélaginu.
Tengsl skammar og sektarkenndar
Umfjöllun um skömm og sektarkennd er gjarnan steypt saman og ekki alltaf
ljóst hver munurinn er á þessum tilfinningum.37 Til að komast að því vil ég
leitast við að skilja sektarkenndina sem slíka og síðan huga að tengslum milli
hennar og skammarinnar. I þeirri viðleitni nýti ég mér reynslu og þekkingu
meðferðaraðila, guðfræðinga og heimspekinga og tengi enn og aftur við
nýlega íslenska samtímaorðræðu um skömm og ofbeldi.
Meðferðaraðilinn E. Sue Blume telur að afar erfitt sé að greina skýrt
á milli skammar og sektarkenndar. Sektarkennd einstaklings, skrifar hún,
stafar af þeirri upplifun að viðkomandi hafi brotið gegn siðferðilegum
viðmiðum eða reglum samfélagsins og muni því hljóta almenna fordæmingu
36 Bernard Williams, Shame and Necessity, bls. 84.
37 Sjá t.d. Carolyn Ainscough og Kay Toon, Surviving Childhood Sexual Abuse. Practical self-help
for adults who were sexually abused as children, London: Sheldon Press, SPCK, [1993], 2000.
Umfjöllun þeirra gerir engan skýran greinarmun á sekt og skömm.