Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Qupperneq 158
eða refsingu fyrir.38 Ljóst er af þessum skilningi að hann liggur ekki fjarri
skilgreiningu Aristótelesar á skömm og styður því þá skoðun að margt sé
líkt með skömm og sektarkennd. Beck-Friis, sem áður er nefndur, telur
mögulegt að aðgreina skömm og sektarkennd og gerir það með því að tala
annars vegar um sjálfið og hins vegar um sjálfsmyndina. Skömm, bendir
hann á, tengist alltaf sjálfsmyndinni sem slíkri, en sektarkennd tengist fremur
þeirri breytni sem maður hefur haft í frammi gagnvart öðrum.39 Skömmin
beinist þá að persónum og tilfinningalegum viðbrögðum þeirra gagnvart
samfélaginu á meðan sektarkenndin beinist að breytni gegn umhverfinu
sem persónan hefur gert sig seka um. Sektarkenndin kenni persónunni um
verknaðinn sem hún beri ábyrgð á, en skömmin bendi á sjálfa sig og segi:
Eg er hræðileg manneskja sem geri svona hræðilegan hlut. Hægt sé að dylja
skömmina fyrir öðrum, líkt og Adam og Eva gerðu, en slíkt sé ómögulegt
hvað sektarkenndina varði, ábyrgðin og sektin hverfi ekki þótt maður láti
sig hverfa.40
Skilningur á sektarkennd beinir sjónum að hugtakinu sekt og hlutverki
þess í almennri orðræðu. I því sambandi hefur heimspekingurinn Iris
Marion Young (1949-2006) bent á að sektarhugtakinu sé beitt þegar fólk
sé ásakað fyrir eitthvað sem gerst hefur í fortíðinni og tal um sekt hafi því
það hlutverk að staðsetja órétt eða rangindi sem hægt sé að ásaka einhvern
um siðferðilega eða lagalega.41 Um þetta má finna mörg dæmi sem tengjast
kynferðisofbeldi gegn börnum og hefur kastljósinu upp á síðkastið einkum
verið beint að kaþólskum prestum í fjölmörgum löndum. I flestum dæmum
má finna svipuð sjónarmið og þau sem fram komu í viðtölum DV við
íslensku karlmennina sem beittir voru kynferðisofbeldi sem börn. Við
höfum þegar rætt um skömmina en spyrja má: Af hverju taka börn á sig
sektina og þar með ábyrgðina á gjörðum hinna fullorðnu gagnvart þeim?
Svar Blume við þeirri spurningu er að ofitar en ekki sé það mun auðveldara
fyrir börn að viðurkenna að þau hafi átt aðild að því ranga sem gerðist en að
viðurkenna að hafa verið hlunnfarin. Sálrænt séð sé minni ógn í því fólgin
að líta svo á að maður beri ábyrgð á verknaðinum og sé þar af leiðandi
myndug persóna en að horfast í augu við að hafa verið algjört fórnarlamb
38 E. Sue Blume, Secret Survivors. Uncovering Incest and Its Aftereffects in Women, New York:
Ballantine Books, 1990, bls. 108-119.
39 Johan Beck-Friis, Den nakna skammen, bls. 48.
40 Sama heimild.
41 Iris Marion Young, Responsibility for Justice, Oxford: Oxford University Press, 2011, bls. xiv-xv.
156