Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Page 160
mér að kenna.“ Svipuð varnarviðbrögð komi fram í setningum eins og:
„Hvað gerði ég til að eiga þetta skilið?“ og „Hvers vegna stöðvaði ég þetta
ekki?“45 Þolendur reyni að halda í sjálfsvirðinguna og grípi til ýmissa skýr-
inga. Samfélagsleg viðhorf ýta því miður undir slíkar skýringar, segir Blume,
og vinna þar með gegn því að ábyrgðin sé staðsett á réttum stað. Karlar
séu t.d. ógjarnan kallaðir til ábyrgðar fyrir kynferðislegt ofbeldi heldur sé
annarra skýringa leitað, annaðhvort hjá konum þeirra eða börnunum sem
þeir beita kynferðisofbeldi. Þannig sé leiðin greið fyrir geranda kynferðisof-
beldis að kynda undir sektarkennd þolenda. Blume vitnar til orða barna sem
hún hefur haft til meðferðar og beitt voru kynferðisofbeldi. Þau ríma við orð
karlmannanna sem tjáðu sig við DV og varða sektarkenndina ekki síður en
skömmina. Blume talar um „survivor guilt“ sem þá reiði og biturleika sem
fórnarlömb áfalla og ofbeldis létta af gerandanum þegar þau taka sökina á
sig: „Fyrst svona mikið illt kom fyrir mig, hlýt ég að hafa verið vond sjálf.“
„Fyrst ég barðist ekki á móti og klóraði og beit, hlýt ég að bera ábyrgð.“46
Skömmin hefur ekki yfirgefið fórnarlambið þótt sektarkennd þjaki það
líka heldur fylgir því á formi lítillar sjálfsvirðingar. Skömmin hvíslar í eyra
fórnarlambsins orðum eins og: „Þú ert vond, ógeðsleg, óhrein“, og sá sem
er það á hvorki skilið kærleika né virðingu.47
Guðfræðingurinn Marie M. Fortune tekur undir með Blume varðandi
upplifanir þolenda kynferðisofbeldis af bæði skömm og sektarkennd og
leggur í því sambandi áherslu á innhverfingu menningarlegra siðferðisvið-
miða og reglna. Þar er hún á svipuðum nótum og Bernard Williams hér að
framan.48 Flest allt sem tengist kynlífi í vestrænni menningu, bendir hún
á, hefur annaðhvort talist hættulegt eða skammarlegt. Slík viðhorf ýti undir
hræðslu og óöryggi fólks á kynlífssviðinu. Margir kristnir söfnuðir veki enn
í dag skömm og sektarkennd með fólki sem stundi kynlíf án þess að vera
í hjónabandi og verði fólk fórnarlömb kynferðisleg ofbeldis sé allteins víst
45 E. Sue Blume, Secret Survivors, bls. 108-109.
46 Sama heimild, bls. 111.
47 Sama heimild, bls. 112.
48 Marie M. Fortune, Sexual Violence. The Sin Revisited, Cleveland: The Pilgrim Press, 2005, bls.
47-73. Hér ber þess að geta að Fortune tengir umræðu sína um kynferðislegt ofbeldi ekki síst
hugtakinu synd. Það gerir hún á áhugaverðan hátt en um það hefur greinarhöfundur fjallað
ítarlega í öðrum greinum og mun því ekki gera það hér. Sjá Sólveig Anna Bóasdóttir, „Kirkjan og
kynferðisofbeldi. Gerendur kynferðislegs ofbeldis - frá guðfræðilegu og siðfræðilegu sjónarhorni“,
Ritröð Guðfritðistofnunar 31/2010:2, bls. 144-161; „Ábyrg og réttlát viðbrögð gagnvart þolendum
kynferðisofbeldis. Guðfræðilegt og siðfræðilegt sjónarhorn", Ritröð Guðfrœðistofnunar 32/2010:2,
bls. 97-117.
158