Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Síða 163
að verkum að hann má sig hvergi hræra um langa hríð. Niðurlæging er það
orð sem hann notar til að tjá lömunarástand sitt. Þegar hann loks kemst á
fætur ákallar hann Guð og segist fyrirverða sig, blygðast sín, skammast sín,
þrátt fyrir að eiga enga persónulega aðkomu að hinni röngu breytni. Hvað
sem því líður upplifir hann djúpa skömm samtímis sem hann tekur upp tal
um sekt og lýsir sektarkennd. Röng breytni í fortíðinni, sekt og sektarkennd
tengjast og Esra tekur á sig alla sök fyrir hönd hópsins jafnframt því að biðja
Drottin um að sýna miskunn og náð.
Lokaályktanir um skömm og sektarkennd, einkenni þeirra og tengsl
Flestir þeir aðilar sem leitað hefur verið í smiðju til í grein þessari varðandi
tengsl skammar og sektarkenndar virðast sammála um að þau tengsl séu
náin. Því má lýsa á ýmsa vegu, t.d. með því að segja að skömmin sé sem
olía á eld sektarkenndarinnar, eða að skömm og sektarkennd blandist hið
innra með manneskjum sem orðið hafa fyrir ofbeldi og áföllum og kristallist
í hugmyndinni um að vera einskis virði. Þetta er þó of einhæf og neikvæð
lýsing á skömminni. Mikilvægt er að halda því til haga sem margsinnis
hefur komið fram hér, nefnilega að skömmin á sér fleiri en eina hlið. Til
er eitthvað sem kalla má góða skömm en líka eitthvað sem kalla má vonda
skömm. Góð skömm er siðferðileg tilfinning sem hefur það hlutverk að
standa vörð um mannhelgi og samfélag. Þannig skilin er skömmin alltaf
á vissan hátt nauðsynleg til að minna okkur á hvað sé rétt og hvað rangt.
I þessu sambandi er athyglisverð ábending Beck-Friis um skömmina sem
nauðsynlegan grundvöll mannlegrar hluttekningar. Sé skömm ekki til staðar
hjá persónu, taldi hann, skortir forsendur uppbyggingar tengsla sem hafa
rofnað. Forsenda skammar er eigin ófullkomleiki og að geta viðurkennt
hann er því grundvallaratriði jákvæðrar umræðu um skömm.
Önnur ályktun sem draga má varðar áhrif neikvæðrar skammar á
þolendur áfalla og ofbeldis. Neikvæð skömm er lamandi tilfinning segja
meðferðaraðilar og benda á að þolendur, einkum börn, skríði mjög oft inn
í skel í kjölfar ofbeldis, þroski þeirra stöðvist og við taki tómleiki. Það sem
í raun gerist sé að brotið hafi verið gegn sjálfsvirðingu þeirra sem skapi reiði
og biturð og hindri þau í að halda áfram á eðlilegri þroskabraut. Neikvæð
skömm er því vanmetakennd sem tengist oft sjálfsásökunum, upplifun af því
að vera aðskotahlutur og einskis virði. Hún getur í versta falli líkst sálrænni
lömun og leitt til dauða.
161
L