Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 164
Skömm og sektarkennd er ekki hægt að aðskilja með góðu móti ef marka
má fagfólk sem hefur reynslu af vinnu með þolendum kynferðisofbeldis og
annarra áfalla. Vissulega má gera þá aðgreiningu með því að benda á að
sektarkenndin tengist fremur breytni og skömmin frekar persónunni sjálfri.
Persóna og breytni hennar eru þó alltaf í nánum tengslum. Mikilvægast er
að reyna að skilja af hverju þolendur, ekki síst börn, taka á sig sök á því
sem þau áttu hlutdeild í en báru þó ekki ábyrgð á. Svar meðferðaraðila
virðist einhlítt: Þau gera það til að lifa af. Það er auðveldara að viðurkenna
sekt en að horfast í augu við þá hræðilegu staðreynd að þau voru svikin
sem börn, þau voru valdalaus og máttu sín einskis. Sektarkennd þeirra á
upptök í reynslu sem erfitt er að vinna úr. Að réttir aðilar séu kallaðir til
ábyrgðar gerist þó oft með tíð og tíma, auknum þroska og í samvinnu við
meðferðaraðila.
Útdráttur
Greinin fjallar um inntak skammarinnar sem siðferðilegrar tilfmningar og
í hvaða aðstæðum sú tilfmning vaknar. Er skömm einvörðungu neikvæð
tilfinning eða má sjá eitthvað jákvætt við hana? Umfjöllun um skömm
tengist oft annarri siðferðilegri tilfinningu sem er sektarkennd og eru
tengslin þar á milli tekin til skoðunar. Víða er leitað fanga við rannsókn
á þessu efni, meðal annars til heimspekinga eins og Aristótelesar, Tómasar
af Aquino, Spinoza og Bernards WiIIiams. Þá er þekking á skömminni
einnig sótt til meðferðaraðila sem aðstoða þolendur kynferðislegs ofbeldis
og annarra áfalla við að ná bata. Þar má m.a. nefna Johan Beck-Friis, E.
Sue Blume, Theo van der Weele og Marie M. Fortune. Innsæi þeirra og
þekkingu er beitt á nýlega samtímaorðræðu þar sem þolendur ofbeldis stigu
fram og ræddu um skömm og ofbeldi sem þeir höfðu mátt þola sem börn.
Helstu niðurstöður greinarinnar eru að skömmin tengist siðferðilegum
hugmyndum manneskjunnar um rétt og rangt og komi oft upp í aðstæðum
sem einkennast af því sem kalla má misgjörð. Aristóteles og heimspekingar
sem fylgja honum að málum leggja áherslu á skömmina sem ótta við að
missa virðingu annarra. Flestir meðferðaraðilar eru sammála um að skömmin
sem siðferðileg tilfmning hafi þróast um aldir með manninum og gegni
mikilvægu hlutverki fyrir einstakling og samfélag. Skömmin getur verið
bæði neikvæð og jákvæð, hún er persónubundin en líka menningarbundin,
í þeirri merkingu að hún tengist siðferði ákveðins samfélags eða menn-
ingarheildar. Neikvæð skömm er lamandi tilfmning, segja meðferðaraðilar,
162