Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Page 167
Árni Svanur Daníelsson: Ritdómur
Bible and Cinema:
Fifty Key Films. Ritstjóri Adele Reinhartz.
New York 2013. Routledge. Xx+217 s.
Fimmtíu bíómyndir sem fjalla beint eða óbeint um Biblíuna, einstök rit
hennar, frásögur eða stef eru viðfangsefni bókarinnar Bible and Cinema:
Fifty Key Films sem kom út fyrr á þessu ári. Ritstjóri bókarinnar er Adele
Reinhartz, prófessor við Háskólann í Ottawa í Kanada. Hún hefur áður látið
til sín taka á þessu sviði með bókunum Scripture on the Silver Screen og Jesus
of Hollywood. Hér leiðir hún saman 38 fræðimenn frá nokkrum löndum sem
skrifa á fjölbreyttan hátt um fimmtíu kvikmyndir sem eru gerðar á hundrað
ára tímabili, frá 1909 til 2009.
„... að bæta skilning okkar og auka áhuga á kvikmyndum ...“
f stuttum inngangi gerir Reinhartz grein fyrir tilurð bókarinnar, nálgun
ritstjórans og ritar nokkur orð um það svið guðfræðinnar sem fæst við
biblíustef í kvikmyndum. Hún segir að markmið bókarinnar sé „að bæta
skilning okkar og auka áhuga á kvikmyndum með því að skoða fjölbreytt
dæmi um eitt mikilvægt þema í frásagnarmyndum í fullri lengd sem er
Biblían1'.1 Bókin er líka ætluð fjölbreyttum hópi lesanda, almenningi sem
hefur áhuga á kvikmyndum, á Biblíunni eða hvoru tveggja, nemendum
og kennurum á ýmsum skólastigum sem taka eða kenna námskeið um
kvikmyndir og Biblíuna og/eða vilja flétta kvikmyndir inn í slík námskeið.
Ekki líta undan
Við val á myndum var að sögn ritstjórans horft til; 1) þess að auðvelt væri
að nálgast þær svo að lesandinn fyndi sig ekki í þeirri stöðu að lesa um
mynd sem ekki væri hægt um vik að horfa á; 2) fjölbreytni kvikmynda; og
3) fjölbreytni í notkun á Biblíunni.
1 Reinhartz: Bible and Cinema, xvi. Héðan í frá verður vísað til bókarinnar með blaðsíðutölum innan
sviga. Inngangurinn er á bls. xvi-xx, en umfjallanir um kvikmyndir á bls. 1-271.