Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Blaðsíða 177
María Ágústsdóttir, Háskóla íslands: Ritdómur
Iben Krogsdal: De máske kristne
Forlaget ANIS, Kaupmannahöfn, 2012, 252 bls.
Iben Krogsdal er doktor í trúarbragðafræðum og hefur um árabil stundað
fræðistörf við Árósaháskóla í Danmörku. Lúta rannsóknir hennar einkum að
því hvernig trú birtist í lífi nútímafólks. Frá sjónarhóli trúarbragðafræðanna
skoðar hún hvernig kristindómurinn er túlkaður í samtímanum, ekki síst
í ljósi þeirra hugmynda um sjálfsþroska og andlega iðkun sem eru svo
áberandi um þessar mundir.
Sú bók sem hér er til umfjöllunar, De maske kristne - Þau sem ef til
vill eru kristin, er fræðileg frásögn og túlkun á fjörutíu viðtölum sem Iben
Krogsdal tók árið 2010 við jafnmarga landa sína á aldrinum 28-81 árs sem
öll tilheyra dönsku þjóðkirkjunni (bls. 22). Með þessari rannsókn hugðist
hún skyggnast inn í hugarheim dansks þjóðkirkjufólks, bjóða því að segja
sögu sína. í framhaldinu skoðaði hún hvernig það sjálft skilur og talar um
trú sína innan ramma lífssögunnar. Hvað þýðir það í dag að vera kristin(n)?
Hvaða skilning leggja ólíkir Danir í þjóðkirkjunni í hugtakið kristindómur
og hvaða máli skiptir trúin í lífi þeirra (bls. 8)?
Bókin skiptist í fimm kafla. í inngangi gerir höfundur grein fyrir
aðferðafræði rannsóknarinnar og því sem þegar hefur verið ritað um efnið.
Kafli tvö fjallar um hvernig fólk leitar skýringa á lífshlaupi sínu og hvernig
skipta má yngra fólkinu í flokka eftir trúarafstöðu. Þriðji kaflinn lýsir
trúarlegri reynslu og mismunandi túlkun hennar. í fjórða kaflanum greinir
höfundur þá orðræðu sem finna má í viðtölunum um kristindóm og kirkju.
Lokakaflinn dregur saman lærdóminn og skerpir á ólíku viðhorfi hinna
mismunandi hópa. Þá er að finna gagnlegan en stuttan orðalista í bókarlok
sem einkum tekur til nýtrúarlegra hugtaka. Heimildaskrá er tæmandi hvað
varðar ívitnuð rit og einnig er þar að finna fleiri rit sem efninu tengjast.
Rökstuðningur Iben Krogsdal fyrir því að nota eiginlega aðferð, þ.e.
viðtöl, frekar en megindlega, þ.e. spurningalista, til að komast nær kjarna
trúarskilnings og iðkunar hins venjulega þjóðkirkjumeðlims er á þá leið að
erfitt sé að fanga trúarvitund með fyrirframgefnum spurningum. Eitthvað
hljóti að verða útundan, ekki síst nýrri trúarhugmyndir sem höfundar