Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 7
6
ef við viljum forðast að tjóðra ekki-fyrirbærið við akademíuna, hefur víða
haft mikil áhrif á rannsóknir, aktívisma og hugmyndir fólks um kyn og
kynverund. Á Íslandi voru hinsegin fræði kynnt til sögunnar í akademísku
samhengi laust fyrir síðustu aldamót þegar fyrrnefndar greinar Geirs og
Dagnýjar birtust á prenti. Í þeim, og fleiri greinum sem höfundarnir sendu
frá sér í kjölfarið, er fjallað um ýmsar helstu kenningar hinsegin fræða,
þær settar í samhengi við íslenskar bókmenntir og bókmenntaumræðu og
gerðar mikilvægar atlögur að því að ræða og greina hinsegin bókmenntir
á Íslandi. Dagný og Geir rekja þræði aftur til miðalda en staldra þó fyrst
og fremst við síðari hluta tuttugustu aldar, hómófóbísk skrif eftir gagnkyn-
hneigða karlmenn jafnt sem merkar skáldsögur um hinsegin ástir og tilveru
eftir höfunda á borð við Kristínu Ómarsdóttur, vigdísi Grímsdóttur og
Guðberg Bergsson.11 Um svipað leyti sendi Ármann Jakobsson enn fremur
frá sér grein um hinsegin lestur á Njálu og því er ljóst að árdagar hinseg-
in fræða á Íslandi voru samtvinnaðir bókmenntarannsóknum.12 Skömmu
síðar voru hinsegin fræði tekin inn í kennslu í kynjafræði í Háskóla Íslands
og áhugaverð skrif hafa litið dagsins ljós í félags- og menntavísindum á
undanförnum áratug. Á sama tíma hefur ekki mikið farið fyrir hinseg-
in fræðum innan hugvísinda á Íslandi en ýmis verkefni eru nýbirt eða í
vinnslu og vonir standa til að framundan séu spennandi tímar í hinsegin
hugvísindarannsóknum.13
11 Sjá einnig t.d. Geir Svansson, „Kynin tvö / Kynstrin öll: Um kynusla, kyn-
gervisútlaga og efni(s)legar eftirmyndir“, Flögð og fögur skinn, ritstj. Jón Proppé,
Reykjavík: Íslenska menningarsamsteypan, 1998, bls. 124–140; Dagný Kristjáns-
dóttir, „Hinsegin raddir: Um sannar og lognar lesbíur í bókmenntum og listum“,
Skírnir haust 2003, bls. 451–481; og „Tómið og tilveran: Um skáldsögur Kristínar
Ómarsdóttur“, Ritið 3/2006, bls. 81–99.
12 Ármann Jakobsson, „Ekki kosta munur: Kynjasaga frá 13. öld“, Skírnir vor 2000,
bls. 21–48.
13 Í grein Hafdísar Erlu Hafsteinsdóttur má sjá yfirlit yfir helstu rannsóknir á hinsegin
sögu, menningu og samfélagi á Íslandi. Sjá „Forsenda fyrir betra lífi“?, bls. 45–51.
Auk þeirra heimilda má geta nýútkomins greinasafns um hinsegin sögu og sagn-
fræði á Íslandi, Svo veistu að þú varst ekki hér, sem grein Hafdísar birtist einmitt í.
Rétt er að taka fram að sökum þess hve merking orðsins hinsegin er fljótandi er
hægt að líta svo á að það geti bæði vísað til aðferðafræði og viðfangsefnis – rann-
sókn á „hinsegin viðfangsefni“, til dæmis samkynhneigð, styðst ekki endilega við
hinsegin fræðilega nálgun og eins má beita hinsegin nálgun á viðfangsefni sem
tengist ekki hinsegin fólki, kyni eða kynverund. Dæmi um hið síðarnefnda er nýleg
grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur þar sem hún notar kenningar hinsegin fræða til
að ræða þá möguleika sem í boði eru varðandi loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar.
Sú grein snertir ekki á kyni eða kynverund heldur styðst við hinsegin fræðileg skrif
ÁSTA KRISTÍN BENEDIKTSDÓTTIR OG RANNvEIG SvERRISDÓTTIR