Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 12
11
var varla til á Íslandi og stutt í harkalega fordæmingu. Leiðin sem Elías
fór, eins og svo margir aðrir rithöfundar hafa gert, var að skrifa undir rós.
Persónurnar eru ekki samkynhneigðar að því leyti að þær gangist við slíkri
sjálfsmynd eða komi ótvírætt fram sem samkynhneigðar heldur er um að
ræða ýmiss konar tjáningu og vísbendingar sem gefa tilefni til þess að til-
finningar persónanna og kenndir séu túlkaðar sem samkynja langanir. Í
greininni fjallar Ásta um slíka gjörninga út frá kenningum Eve Kosofsky
Sedgwick um hinsegin gjörningshátt og beinir sérstaklega athyglinni að
því hvernig hinsegin gjörningar persónanna tengjast skáldskap og þeim
möguleikum sem hann býr yfir; í gegnum lestur og skapandi skrif hafa
persónurnar möguleika á að tjá sig og losa um skömmina sem fylgir því að
vera öðruvísi.
Þýðingarnar í þessu hefti eru tvær en auk pistils Berlant og Warners
um hinsegin fræði birtist hér grein eftir Lillian Faderman, einnig frá árinu
1995, sem spyr aðkallandi spurningar: „Hvað eru lesbískar bókmenntir?“
Eftir hverju horfum við og að hverju erum við að leita? Þessar spurningar
skipta meginmáli þegar kemur að því að greina menningartexta, hvort sem
nálgunin er hinsegin, það er afbyggjandi, eða fremur miðuð því að koma
auga á samkynhneigð eða aðrar sjálfsmyndir.
Tvær greinar utan þema birtast í heftinu. Í grein sinni „„eins og ævintýri“
eða „glansmynd af horror“?“ fjallar Guðrún Steinþórsdóttir um viðbrögð
ólíkra lesenda við skáldsögunni Frá ljósi til ljóss eftir vigdísi Grímsdóttur
auk þess sem hún tekur til umfjöllunar bókadóma um verkið. Í rannsókn
sinni beitir Guðrún bæði „hefðbundnum“ aðferðum bókmenntafræðinnar
og eigindlegum rannsóknum, í formi hópviðtals, með það að markmiði
að kanna tilfinningaviðbrögð og samlíðan þátttakenda. Upplifun lesend-
anna af sögunni reyndist mjög ólík og eins og titill greinarinnar ber með
sér fannst sumum þeirra sagan falleg ástarsaga í ætt við ævintýri á meðan
aðrir upplifðu hana sem hryllingssögu. Þessi ólíku viðbrögð ræðir Guðrún
og útskýrir með hliðsjón af hugrænum fræðum en eins og hún segir í loka-
orðum má með þessari nálgun komast nokkru nær því en áður hver áhrif
og viðtökur bókmennta eru.
Í síðari greininni sem hér birtist utan þema, „Dauðinn, réttlætið og
guð hjá Forngrikkjum“, fjallar Svavar Hrafn Svavarsson um ólík viðhorf
til þess hver örlög sála eru eftir dauðann. Í greininni er veitt yfirsýn yfir
hugmyndir um handanlíf, um samhengi þessa lífs og næsta og fjallað um
kenningar um réttlæti, hamingju og refsingu hjá Forngrikkjum fyrir tíma
Að HINSEGJA HEIMINN