Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 75
74
átta karlveldisins við sterkar konur“128 en sterkum konum, líkt og veikgeðja
karlmönnum, er í sögunum oft brigslað um ónáttúru og ergi.129 Tilvísanir
til ergi koma einnig fyrir í móðgunarskyni, eins og þegar Skarphéðinn
bregður Flosa um að vera brúður Svínafellsáss, sem geri hann að konu
„hverja hina níundu nótt“.130 Helga Kress hefur einnig skrifað um völvurn-
ar, sem karlmönnum stóð ógn af, sem og um kvenhatrið sem víða má sjá í
fornbókmenntum, sérstaklega í persónulýsingum kvenna sem hegðuðu sér
ekki eins og til var ætlast og létu ekki kúga sig til hlýðni.131 Í íslenskum forn-
aldar- og riddarasögum má merkja að menn hafa ímyndað sér ýmiss konar
umbreytingar og þar bregður fyrir undarlegum kvenpersónum. Sem dæmi
má nefna hina frönsku drottningu Sedentíönu, sem sagt er frá í Sigurðar
sögu þögla, sem hefir „með háðung hafnað og með dáruskap í brott rekið“
marga biðla sína.132 Þá hafði hún „látið gera sér leynilegt herbergi“ og
„grasagarð með ilmandi grösum og aldintrjám,“ þar sem hún dvelur með
öllum sínum „meyjarskara“ en engir aðrir fá þangað að koma „án hennar
vilja“.133 Til að fá Sedentíönu til að þýðast karlmann þarf ekkert minna en
mikinn galdur og segir sagan frá þeim kynjum öllum í smáatriðum. Þá má
einnig minna á frásagnir af íslenskum konum á borð við Látra-Björgu,
sem þótti „sýna mikla víkingslund í sæferðum“134 og vakti „á sér athygli fyrir
óvenju eldlegar gáfur og stórbrotna skapsmuni“.135 Gísli Konráðsson segir
hana „hafa verið kvenna „ferlegust ásýndum““ og getur þess jafnframt að
heldur hafi verið „ókvenlegt atferli hennar í mörgu“.136 Fleiri slík dæmi
128 Helga Kress, Máttugar meyjar, Reykjavík: Háskóli Íslands, Háskólaútgáfan, 1993,
bls. 12.
129 Sjá t.d. Dagný Kristjánsdóttir, „Hinsegin raddir“, kaflinn „Kartnaglablús“ á bls.
458–460.
130 Njáls saga, 123. kafli.
131 Helga Kress, Máttugar meyjar; ýmsar greinar í Fyrir dyrum fóstru. Greinar um konur
og kynferði í íslenskum bókmenntum, Reykjavík: Háskóli Íslands, Rannsóknarstofa í
kvennafræðum, 1996, og „Óþarfar unnustur: Um samband fjölkynngi, kvennafars
og karlmennsku í Íslendingasögum“, Óþarfar unnustur og aðrar greinar um íslenskar
bókmenntir, Reykjavík: Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands, 2009, bls.
3–29.
132 Sigurðar saga þögla, Riddarasögur III, Bjarni vilhjálmsson bjó til prentunar, Reykja-
vík: Íslendingasagnaútgáfan, Haukadalsútgáfan, 1949–1951, bls. 95–267, hér bls.
125.
133 Sama heimild, bls. 186–187.
134 Tómas Guðmundsson, „Ættstór kona velur sér vergang“, Konur og kraftaskáld.
Íslenskir örlagaþættir, Reykjavík: Forni, 1964, bls. 13–33, hér bls. 17.
135 Sama heimild, bls. 19.
136 Sama heimild, bls. 19–20.
soffía auðuR BiRGisdóttiR