Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 11
10
Þemagreinarnar að þessu sinni fjalla um ólíkar hliðar hinsegin fræða og
rannsókna: teoríu, sögu og bókmenntir. Guðrún Elsa Bragadóttir ríður á
vaðið með grein um sálgreiningu og hinsegin fræði en þar spyr hún hvort
þetta tvennt geti farið saman. Svar hennar er já, sannarlega fara kenning-
ar sálgreiningar og hinsegin fræða saman en þær rekast líka á. Í samspili
þeirra á milli, svo sem í úrvinnslu Judith Butler á kenningum Sigmunds
Freud og Jacques Lacan en ekki síður í nýlegri gagnrýni fræðimanna á
borð við Tim Dean og Patriciu Gherovici á skrif Butler og þeirra eigin
nálgun á grunnkenningar sálgreiningarinnar, hefur orðið til frjó umræða
um kyn, kynverund og mótun sjálfsins. Þótt Freud og Lacan hafi verið
gagnrýndir fyrir að vilja fella sjálfsveruna, kyn hennar og kynverund inn
í gagnkynhneigð, karllæg kerfi er málið flóknara en svo; í skrifum þeirra,
sem tóku breytingum og voru í sífelldri endurskoðun, koma fram ýmsar
mótsagnir sem sýna að slíkar skilgreiningar eru alltaf óstöðugar og í raun
ómögulegar. Guðrún Elsa rekur hvernig síðari tíma fræðimenn hafa gert
ýmsar atlögur að því að afbyggja grunnkenningar sálgreiningarinnar með
því að benda á innri mótsagnir þeirra en um leið byggt á þeim til að varpa
ljósi á ýmsar ólíkar hliðar kynjaðs veruleika sjálfsverunnar.
Í grein Soffíu Auðar Birgisdóttur er viðfangsefnið einnig hið erfiða og
oft ómögulega verkefni að ákvarða kyn og kynverund. Hún dregur fram
sögu einstaklings frá 19. öld, Guðrúnar Sveinbjarnardóttur, og frásagnir
af henni sem gefa í skyn að Guðrún hafi þótt karlmannleg og ýja að því að
kynferði hennar hafi verið rangt ákvarðað við fæðingu. Skortur á heimild-
um og persónulegum vitnisburði Guðrúnar sjálfrar um tilfinningar hennar
og kynvitund gerir að verkum að ómögulegt er að segja til um kynferði
hennar, kynverund eða sjálfsmynd. Sögusagnir samtímafólks Guðrúnar,
og annarra sem síðar komu, sýna engu að síður að í augum annarra var hún
á einhvern hátt hinsegin, það er á skjön við hefðir, venjur og hugmyndir
samtímans um hvað væri „satt“ eða eðlilegt kyn. Í greininni nefnir Soffía
nokkra möguleika til túlkunar á þessum frásögnum og gerir einum þeirra
ítarleg skil, það er þeim möguleika að kynferði Guðrúnar hafi verið órætt
og hún hafi fæðst með kynbreytileika sem samkvæmt nútímaorðfæri fellur
undir regnhlífarhugtakið intersex.
Ásta Kristín Benediktsdóttir fjallar um skáldsöguna Man eg þig löngum
eftir Elías Mar og samkynja langanir sögupersónanna. Bókin var rituð
undir lok fimmta áratugar síðustu aldar en þá var erfitt að ræða og skrifa
hreinskilnislega um samkynja ástir; opinber orðræða um samkynhneigð
ÁSTA KRISTÍN BENEDIKTSDÓTTIR OG RANNvEIG SvERRISDÓTTIR