Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 96
95
Á Jarðarbúum og ýmsum öðrum samfélögum alheimsins er með öðrum
orðum sá grundvallarmunur að þeir leggja almennt svo mikla áherslu á
holdlega ást að hún heftir andlegan þroska þeirra og framgang háleitrar
ástar sem ekki er bundin við líkama eða líkamlegar þarfir.
Bóas hefur gert Úraníu að tilvistarlegu trúarriti sínu og trúir því að
mannfólkið geti, ef það þráir nógu heitt, komist á æðra tilverustig þar sem
það öðlast „hina eilífu ást“ sem það fær ekki að njóta í þessu jarðlífi.39 „Og
allt sem við þráum hér en ekki fáum,“ segir hann við Halldór,
stundum er það sjálfum okkur að kenna að við fáum ekki hvaðeina
sem við viljum, – en hvað um það, – allt sem við öðlumst ekki hér
það fáum við síðar. við megum aðeins ekki gleyma að þrá, ekki láta
líða úr huga okkar það sem við höfum einu sinni látið heillast af og
ekki notið. (108)
Þennan sama boðskap um mikilvægi þess að bíða og sýna þrautseigju bygg-
ir hann einnig á viðlagi úr gömlu kvæði sem hann þylur fyrir Halldór:
Man eg þig löngum
menja fögur hrund.
Eg sá þig við æginn blá
um eina stund.
Muntu seint úr mínum huganum líða. (132)
Bóasi verður tíðrætt um hina eilífu ást og þrána sem aldrei má gleymast
í tengslum við hrifningu Halldórs á Helgu og enn fremur er ýjað að því
að Bóas hafi misst stúlku sem hann elskaði þegar hann var ungur og þótt
„undarlegur síðan“ (249). við fyrstu sýn lítur því út fyrir að sá boðskapur
sem Bóas trúir á sé gagnkynja ást: að karlmenn eigi að sýna þrautseigju
þótt stúlkurnar sem þeir elski hverfi úr lífi þeirra eða samböndin gangi
ekki upp. Þegar nánar er að gáð kemur þó annað í ljós.
39 Rétt er að geta þess að tilvistarlegar hugmyndir á borð við þær sem settar eru fram
í Úraníu voru ekki „einungis“ skálduð fantasía á ritunartíma bókarinnar heldur
hluti af víðu samhengi dulspeki- og vísindakenninga, meðal annars um framhaldslíf
og tengsl við aðra hluta alheimsins. Speki Bóasar er því ekki bara trú á skáldaðan
fantasíuheim heldur einnig að einhverju leyti byggð á vísindalegum kenningum
sem Flammarion miðlar í skáldsögunni. Um dulspekikenningar og -skrif á Íslandi
á fyrri hluta 20. aldar sjá m.a. Benedikt Hjartarson, „„Magnan af annarlegu viti“:
Um strangvísindalega dulspeki Helga Pjeturss“, Ritið 1/2017, bls. 113–174; og
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, „„að predika dýraverndun fyrir soltnum hýenum“:
Þættir um lífsspeki Þórbergs Þórðarsonar“, Ritið 1/2017, bls. 9–52.
KYN(NGI)MÁTTUR SKÁLDSKAPARINS