Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 77
76
Ekki er þekkt tilefni kvæðisins en slúður og slettirekuskapur hefur lengi
lifað í mannlegu samfélagi og mun gera um ókomna tíð. Fallegasta vitn-
isburðinn um Guðrún Sveinbjarnardóttur gefur samtímamaður hennar í
Stykkishólmi, Oscar Clausen, og hef ég þau að lokaorðum:
Ég var orðinn fulltíða maður þegar maddama Guðrún dó og man
hana því vel. Hún var mjög listfeng og músíkölsk eins og öll börn
Sveinbjarnar rektors og má þar t.d. nefna Benedikt Gröndal skáld.
Hún spilaði á langspil og kenndi stúlkum útsauma, balderingu,
skatteringu o.fl. – Maddama Guðrún átti fallegan skautbúning, sem
hún hafði saumað sjálf. – Á hvítasunnudag á hverju vori, sem var
fermingardagur, skautaði maddama Guðrún og hafði þá framan á
sér skrautlega hvíta handlínu yfir höndum sér, þegar hún gekk inn
kirkjugólfið og settist í sætið sitt, – alltaf sama sætið í næst innsta
bekk að sunnanverðu í kirkjunni. – Mér er minnisstæð sú reisn, sem
þá var yfir persónu þessarar öldnu hefðarkonu.139
Ú T D R Á T T U R
Hið „sanna kyn“ eða veruleiki líkamans?
Hugleiðingar spunnar um frásögn af Guðrún Sveinbjarnardóttur
Útgangspunktur greinarinnar er stutt en merkileg frásögn Málfríðar Einarsdóttur af
Guðrúnu Sveinbjarnardóttur (1831–1916). Þar er staðhæft að Guðrún hafi gengið
„með rangt ákvarðað kynferði alla ævi“ og jafnvel barnað aðra konu. Rýnt er í þær
takmörkuðu heimildir sem tiltækar eru um Guðrúnu og fjallað um aðstæður henn-
ar sem fráskilinnar konu á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar. Efasemdir um rétt
ákvarðað kynferði Guðrúnar gefa tilefni til hugleiðinga um kröfuna um hið sanna kyn
þar sem gengið er út frá því að kynin séu aðeins tvö. veruleiki margra líkama fellur
ekki að slíkri kröfu og varpað er ljósi á umræðuna sem því tengist á ólíkum sviðum
svo sem bókmenntum, sagnfræði og læknisfræði. Út frá sögusögnum um Guðrúnu
er velt upp ýmsum möguleikum, til að mynda þeim að hún hafi verið með int-
ersex kynbreytileika. Umræða um intersex er fremur skammt á veg komin í íslensku
fræðasamhengi og því nokkuð ítarlega fjallað um það. Þá er ekki litið framhjá þeim
möguleika að sögusagnir um að Guðrún hafi ekki verið „gerð sem aðrar konur“ séu
einfaldlega slúður, sprottið af ‚karlmannlegu‘ útliti hennar og sjálfstæði.
Lykilorð: Kynjafræði, hinsegin fræði, intersex, slúður, kvennasaga
139 Oscar Clausen, „Séra Þórður „hinn sterki““, bls. 82–83.
soffía auðuR BiRGisdóttiR