Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 160
159
DAUðINN, RÉTTLÆTIð OG GUð HJÁ FORNGRIKKJUM
að setja hugmyndina í siðfræðilegt samhengi, þar sem vitund um mikilvægi
framhaldslífsins og hamingju spilar rullu. Hún er fáséð á þessum tíma,
nema í Lofsöngnum til Demetru. Annars hefði mátt vænta fleiri slíkra til-
vísana frá fimmtu öld, þegar margt var rætt um réttlæti, en fátt gerist fyrir
Platon. Eigi að síður sjáum við breytta hugmynd um réttlæti frá því sem
var hjá Hesíodosi, hugmyndina um handandóminn. En ólíkt því sem við
greinum í launhelgunum, er hugmyndinni um innvígslu gert lægra undir
höfði en þeirri skoðun Pindars að siðgerðin – hið aristókratíska ágæti –
ákveði handanhamingju.
Athugum fyrst harmleikinn Meyjar í nauðum eftir Æskýlos (226–32),
sem líklega var fluttur skömmu eftir 473:
Er fugl, sem ræðst að fugli, saklaus? Hvort mun þá sá maður sýkn,
er sækir brúði nauðuga til nauðugs föður? Flýja mun hann ei sinn
dóm í dauðraheimi Hadesar. Því þar er sagt að annars Seifur dæmi
að lokum afbrot öll.38
Síðar í leikritinu (701–9) vísar kórinn til mikilvægis þess að fylgja hinum
óskráðu lögum, sem voru þrenn, og vörðuðu guðina, gesti og foreldra.
Finna má hótun: „Hver sem smánar goð mun fá á settum tíma makleg
málagjöld“ (732–33).39 Það er til þessara laga sem kór refsinornanna vísar í
öðrum harmleik Æskýlosar, Hollvættum (267–75; og sjá 538–48), sem var
settur á svið árið 458; kórinn hótar Órestesi með handanrefsingu:
Ég tæri þitt þrek, og dreg þig í djúpið drepinnar móður angist að
bæta. Þar sérðu, að hver sem sekur gerist um svívirðingu gegn heiðri
foreldra, gesta og guða, fær goldin verkalaun réttvísinnar. Því Hades
í jarðar djúpum dæmir dauðlega menn; allt skoðar hann, og í huga
geymir.40
38 Þýðingar úr grískum harmleikjum eru eftir Helga Hálfdanarsonar: Grískir harm
leikir, Reykjavík: Mál og menning, 1990. Til eru eldri vísanir í Hades sem hin
jarðlæga Seif í Hómer (Il. 9.457; sbr. 9.569), sem getur ásamt Persefónu kallað til
refsinornirnar til að refsa þeim sem brjóta af sér í lifanda lífi.
39 Sbr. 413–16: „… eða hvort mér sé ... vís hin grimma hefnd þess guðs er öllu tortímir
og jafnvel ekki í ríki dauðra gefur grið þeim sem hann hefur ofsótt“.
40 Það eru vitaskuld fleiri tilvísanir til starfa refsinornanna í Hollvættum: „ ... var oss
fengin sú eilíf iðja að elta þá sem í frændvíg rata, ofsækja þá, unz undir jörð endað
er þeirra skeið“ (339–40); „en aldrei bjargar hann þeim manni, þótt hann leiti frelsis
undir jörð. Um frændvíg sekur á hann yfir höfði sér þann ættmann, sem um síðir
kemur hefndum fram“ (175–78); „Því refsinornum ber mikið vald og virðing, jafnt
með goðum sem vættum neðri byggða“ (951–52).