Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 56
55
um í Reykjavík.69 Þá hafði hún leigutekjur í mörg ár og frá árinu 1895 til
dánarárs naut hún einnig ekknastyrks, samtals í nítján ár.70 Í Stykkishólmi
naut Guðrún „mikillar virðingar bæði sakir ættar sinnar og einnig vegna
þess að hún þótti mikilhæf og sérstök kona“.71 Lát Guðrúnar var tilkynnt í
Morgunblaðinu: „Hér með tilkynnist vinum og vandamönnum að ekkjufrú
Guðrún Sveinbjarnardóttir í Stykkishólmi andaðist að heimili sínu kl. 11
í gærkvöldi eftir langvarandi lasleika, nær 85 ára gömul.“ Tilkynningin
er dagsett 3. júní og undir hana skrifar „[f]yrir hönd ættingjanna“, Jón Á.
Egilsson, bróðursonur Guðrúnar.72 Eftir að Guðrún var orðin sjúkling-
ur og gat ekki hugsað um sig sjálf naut hún hjúkrunar og aðhlynningar
Elínborgar Baldvinsdóttur, fyrrum leigjanda síns,73 frá því í september
1914 og til dánardægurs, eins og sjá má af reikningi sem Elínborgu var
greiddur úr dánarbúinu, 31. desember 1916, upp á 325 krónur.74
„Og hlaut hún að ganga með rangt ákvarðað kynferði alla ævi“
Af því sem hér hefur verið dregið saman úr tiltækum heimildum um
Guðrúnu Sveinbjarnardóttur má segja að upp teiknist nokkuð flókin
mynd. Myndin sýnir sjálfstæða, duglega og mikilhæfa konu sem sá fyrir
sér sjálf með ýmsum ráðum og naut virðingar í Stykkishólmi, þótt hún
þætti sérstök. Um hana var hins vegar einnig slúðrað og athygli vekur að
hún býr árum saman með Ragnhildi Gísladóttur, en enginn karlmaður
kemur við sögu í slúðri um Guðrúnu. Það sem vekur einna mesta eftirtekt
í frásögn Málfríðar er sú fullyrðing að vinnukona á prestssetrinu í Otradal
hafi kennt Guðrúnu barn og hún ekki getað „borið það af sér“. Af því sem
rakið hefur verið hér að framan er ekkert sem styður þá sögusögn, né þá
að Guðrún hafi gengið „með rangt ákvarðað kynferði alla ævi“. Það er
hins vegar ljóst að Guðrún og séra Þórður áttu við hjónabandserfiðleika
69 Á Iðnaðarsýningunni 1883 hlaut hún heiðurspening úr silfri „fyrir baldírað belti“,
sjá Ísafold 22. september 1883, bls. 95–96, og á Iðnsýningunni 1911 hlaut hún þriðju
verðlaun fyrir listsaum, sjá Lögrétta 23. ágúst 1911, bls. 151.
70 Lbs. 2367. 4to. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, Prestaæfir X, bls. 783. Séra
Þórður lést árið 1889 en Guðrún fékk fyrst ekknastyrk sex árum síðar.
71 Bragi Straumfjörð Jósepsson, Eitt stykki hólmur, bls. 465.
72 Morgunblaðið 4. júní 1916, bls. 1.
73 Árið 1880 var Elínborg Baldvinsdóttir (1863–1935) leigjandi í Guðrúnarhúsi og
bjó þar með fóstursyni sínum, Baldvini Sigurvinssyni (1904–1982). Ekki voru fleiri
íbúar í húsinu þá en þau þrjú. ÞÍ, manntal fyrir Stykkishólm 1880.
74 Sjá ÞÍ, Sýslumaður Stykkishólmi ED2/19, örk 8. Skipta- og uppboðsskjöl. Dánarbú
Guðrúnar Sveinbjarnardóttur 1917.
HIð „SANNA KYN“ EðA vERULEIKI LÍKAMANS?