Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 93
92
Umbreytingarmáttur skammarinnar
Mikilvægur þáttur í kenningu Sedgwick er að skömm hvetji eða leiði til
gjörninga sem tengjast sköpun og mótun sjálfsmyndar sjálfsverunnar og
tengslum hennar við annað fólk. Þegar skömmin hellist yfir sjálfsveruna
rofna samsömunartengsl hennar en um leið hefst eins konar hringrás sam-
sömunar og samskipta: sjálfsveran lítur undan og forðast augnaráðið sem
neitar að samþykkja hana, leggst í sjálfsskoðun og beinir athyglinni inn
á við en um leið finnur hún oft fyrir ríkri þörf til að laga það sem fór
úrskeiðis og koma aftur á þeim tengslum sem rofnuðu. Skömmin stuðlar
þannig að sjálfsmyndarmótandi gjörningum sem beinast bæði inn á við og
út á við, segir Sedgwick – áköf sjálfsskoðun og einangrun er gjörningur,
merkingarbær athöfn, rétt eins og það að tengjast öðrum.35 Halldór í Man
eg þig löngum er gott dæmi um hið fyrrnefnda en eins og áður segir setur
framtaksleysi og verkkvíði hans mark sitt á alla skáldsöguna og eftir því
sem á líður hefur hann sífellt minni samskipti við annað fólk. Óvirkni hans
gæti virst vera allt annað en gjörningur – jafnvel andstæðan við gjörning
– en það að leyfa skömminni að hellast yfir sig og draga sig í hlé er eins
og áður segir líka gjörningur í skilningi Sedgwick. Þannig má segja að sá
hinsegin gjörningur Halldórs sem er mest áberandi í sögunni sé verkleysi
hans og innhverfa sem grundvallast á því að hann trúir því sjálfur að hann
muni aldrei losna við skömmina sem fylgir því að vera öðruvísi.
Þar sem skömm er mikilvægur þáttur í þróun og mótun sjálfsmyndar
telur Sedgwick ekki rétt að leggja allt kapp á að losna við hana, til dæmis
með sálfræðilegum eða pólitískum aðferðum. Skömmin er ekki eitraður
hluti af einstaklingum eða hópum sem hægt er að uppræta, segir hún; hún
er hvorki góð né slæm heldur einfaldlega óaðskiljanlegur hluti af mót-
unarferli sjálfsmyndar okkar. Það er engu að síður hægt að vinna með hana
á ýmsan hátt og Sedgwick leggur í því samhengi áherslu á þá umbreyting-
armöguleika sem gjörningar skammarinnar búa yfir – hegðun, ákvarðanir,
hugsanir sem miða ekki að því að eyða skömminni heldur vinna með hana
og leyfa henni að vera sívirkur hluti af sjálfsmyndarmótun einstaklings-
ins.36
Líta má á sögulok Man eg þig löngum út frá þessu sjónarhorni. Halldór
fær þar tækifæri til að horfast í augu við samkynja þrár sínar þegar hann
hittir miðaldra mann sem lætur hann hafa peninga, býður honum heim
35 Eve Kosofsky Sedgwick, Touching Feeling, einkum bls. 34–38 og 61–66.
36 Sama heimild, bls. 61–66.
Ásta KRistín BEnEdiKtsdóttiR