Skírnir - 01.04.1912, Side 80
176
Sigga-Gunna.
Þá var alt í einu eins og hún lifnaði við, hún rétti
úr sér, og kastaði miðanum frá sér.
»Nú kemur það«, hvíslaði Árni.
Áður en orðinu vai' slept hljóp Sigga-Gunna að búð-
ardyrunum, þreif í handfangið og hristi hurðina af aleíli.
Hún lamdi og sparkaði. — Sneri sér svo við og hljóp yfir
um til okkar, andlitið var nú eldrautt og hún froðufeldi
af bræði.
Hún var orðin brjáluð.
Við heyrðum hvernig hún ólmaðist í forstofunni neð-
anundir okkur, til þess að komast inn í skrifstofuna; svo
hljóp hún aftur í búðarhurðina, en þegar hún ætlaði að
gera nýja atrennu að komast inn til okkar, varð henni
fótaskortur á miðri götunni og hún datt á grúfu niður í
krapið og forina.
»Hver andskotinnc, sagði Páll. Hann var náfölur.
Eg leit á Árna. Hann glotti enn.
Sigga-Gunna lá dálitla stund eins og hún væri dauð, og
eg sá að Sveinn búðarmaður opnaði búðina. En alt í einu
kiptist hún við og reis upp á fjóra fætur, og svo alveg upp.
Æðið var af henni; hún var aftur jafn föl og áður, en
skjögraði eins og drukkinn maður. Vatnið streymdi niður
úr fötum hennar, og þau voru öll ötuð for og krapi.
Sigga-Gunna stóð dálitla stund kyr á götunni og horfði
á skrifstofugluggann. Svo vafði hún sjalinu um andlitið
og lagði af stað heimleiðis; hún skjögraði upp götuna, átti
auðsjáanlega bágt með að halda jafnvæginu.
Árni og Páll fóru niður.
»Heldurðu ekki að Jónas á Hnúki vilji selja þann
gráa?« heyrði eg að Árni sagði í stiganum. »Mikið skolli
líst mér vel á þann fola«. —
Eg 8tóð við gluggann. Kafaldið fór vaxandi; það
hlóð niður. Var að byrja að skyggja af nóttu.
Eg horfði á eftir Siggu-Gunnu, þar til hún hvarf út
í fjúkið.
Þórir Bergsson.