Andvari - 01.01.1988, Blaðsíða 53
JÓN VIÐAR JÓNSSON
Harmleikjaskáld og prédikari
A aldarafmœli Kambans
í kringum aldarafmæli Guðmundar Kambans í júní í sumar urðu í blöðum
dálítil orðaskipti um það, hversu lítt minningu þessa skálds og leikhúsmanns
væri á loft haldið af Islendingum. Helga Bachmann, sem Ieikstýrði sýningu
Þjóðleikhússins áMarmara, sagði í blaðaviðtali að sér fyndist sem ábyrgðar-
menn íslenskrar bókmenntaumræðu hefðu reynt að halda verkum Kambans
leyndum af pólitískum ástæðum; hann hefði — aðallega af Kristni E.
Andréssyni — verið stimplaður borgaralegur höfundur og svo hefði orð-
sporið af nasisma hans ekki bætt úr skák eftir að það komst á kreik. Þessum
ásökunum Helgu andmælti Árni Bergmann, ritstjóri Þjóðviljans, svo í blaði
sínu. Benti hann m.a. á að helstu leikrit Kambans hefðu alls ekki verið sýnd
minna hér á landi en eðlilegt gæti talist, og hvað skáldsögur hans áhrærði þá
væri ekki kynlegt þó að þær hefðu á seinni árum horfið nokkuð í skuggann;
þær stæðust einfaldlega ekki lengur samanburð við það besta í íslenskri
skáldsagnagerð, einkanlega skáldsögur Halldórs Laxness.
Nú er það í sjálfu sér mjög ánægjulegt að menn skuli sjá ástæðu til að
skiptast á skoðunum um stöðu einstakra höfunda í bókmenntum okkar. Um
Guðmund Kamban er það óumdeilanlegt að hann er einn af merkustu
frumherjum íslenskrar Ieikritunar, þó að annað mál sé hversu víðtæk áhrif
hans hafi verið og hversu líkleg verk hans séu til langlífis. Það er held ég líka
óumdeilanlegt — eins og Árni Bergmann viðurkenndi raunar í grein sinni —
að hann hafi að einhverju leyti goldið þess að hann kaus að gerast erlendur
nthöfundur, og það jafnvel þótt hann skrifaði langflest verka sinna bæði á
dönsku og íslensku. Guðmundur Kamban setti markið hátt; hugðist verða
alþjóðlegur rithöfundur, jafnvel á enska tungu, og ræktaði þess vegna
tengslin við ísland mun síður en Gunnar Gunnarsson eða Jóhann Sigurjóns-
son. Er því ofurlítið kaldhæðnislegt að bálkur Kambans um Brynjólf biskup
°g fjölskyldu hans skuli hafa enst best af skáldverkum hans; áhrifamikið og
máttugt verk, sprottið upp úr lifandi áhuga íslendinga á fortíð sinni og sögu,
Prýðilegur vitnisburður um frásagnarlist höfundar og sálfræðilega glögg-
skyggni.
En þrátt fyrir fjarlægð Guðmundar Kambans frá íslenskum veruleika, þá