Andvari - 01.01.1988, Blaðsíða 175
ANDVARI
„LANDMÍNSFÖÐUR"
173
berst ákallið til eyrna í söng náttúrunnar: vængjaþyt fugla og bláklukkum,
sem hringja í röddum forfeðranna, og kemur hér enn einu sinni í ljós, að
þegar mest liggur við, er landið heilagt tákn í augum Jóhannesar og rödd þess
svo hrein, að honum finnst, að hver óspilltur íslendingur hljóti að hlýða henni
skilyrðislaust.
Efi og þjáning, sem víða birtast í síðustu ljóðum Jóhannesar, hafa þó síður
en svo svæft hinn forna baráttuvilja hans, sem blossar upp í landvarnarskyni í
Herhvöt og Dagmálum. Þar ávarpar hann sveitunga sína, Laxdæli, og hvetur
þá til að berjast altygjaða í úrslitagný Mannstjörnunnar, bægja hverjum
skaðvaldi frá garði og gera hreint fyrir öllum dyrum. Engum trúir hann betur
en fólkinu í átthögum sínum, þegar mikils þarf við. Hjá því vill hann vera, og
Dölunum er hamingjudraumur hans bundinn, eins og fallega er lýst í Fjöl-
skyldunni.
Þegar tvö risavaxin finngálkn, kennd við Atlantshaf og Varsjá, hafa skipt
smælingjunum á milli sín og þeir titra ósjálfbjarga í lausu Iofti milli steins og
sleggju, flýja þeir heim og fela sig í dölum sínum og fjöllum. Aðeins þar var
Jóhannes úr Kötlum alsæll og alfrjáls, og dulkynjuðu sambandi sínu við
landið og goðmögn þess hefur hann líklega aldrei lýst af meiri myndugleik og
dýpri tilfinningu en í ljóðunum Endur fyrir löngu, Einfara og ljóðunum
fjórum í Inn millifjallanna, sem óbyggðirnar og öræfin lögðu honum á tungu.
En í mannabyggð varð útsýnið stundum svo mikið, að hann neyddist til að
loka augunum. Hann hafði stigið á rauða klæðið með ástinni sinni og svifið
yfir heimsbyggðina, þar sem svo sárt er grátið og grimmilega barist, en komist
að þeirri niðurstöðu, að heima væri best og lífið fyrir vestan, þar sem draum-
lyndu sveitapiltarnir voru að dunda við listina sína, einnig lífið hans, eins og
sést í fjórðu hugvekju úr Dölum:
Og við svífum aftur heim í dalinn og lendum í
náhlíðinni.
Göngum heim á prestsetrið, þar sem hann matti
litli er smali hjá honum frænda sínum,
afa hans muggs litla.
Og strákalingarnir koma út á hlaðið til þess að
fagna gestum: matti með alla þjóðina
í fanginu og muggur með tröllkarla og
prinsessur í halarófu á eftir sér.
Og þarna kemur kolstaðamundi með steinana sína
og járnin og fer að sýna okkur hvernig
hann býr til allskonar verur sem hann
gæðir risavöxnu lífi.
Og eins og hendi sé veifað tekst allur Þykkviskógur
á loft af saklausri kátínu — það er eins
og laufin og fuglarnir og lækirnir hverfist í
samstilltum dansi.