Andvari - 01.01.1988, Blaðsíða 168
166
HJÖRTUR PÁLSSON
ANDVARI
óður er ekki ortur út í bláinn, heldur er hann ákall þess, sem þarf að bjarga sál
sinni, eins og glöggt sést í þessum erindum úr Bœn:
Hvert á að flýja meðan allt er ógn,
— einskis að vænta, nema blóðs og társ,
meðan hið veika kvak eins kvæðamanns
kafnar í sjúkum ópum lygi og dárs?
Blómið í túni, hússins dygga dýr,
dulúðga heiði, sólu roðna fjall:
heyrið nú, meðan maður vopnsins deyr,
mál ykkar vinar, hjartans þreytta kall.
Náttúra, vagga alls og einnig gröf:
yngdu mig, vertu sálar minnar hlíf,
gefðu mér aftur gleði mína og söng,
gefðu mér aftur trúna á þetta líf!
Stundum er sú mynd íslands, sem bregður fyrir í Eilífðar smáblómi,
næstum ójarðnesk. Það er eins og yfir henni hvíli einhver upphafinn helgi-
blær. Tign Kjalar og Goðalands, þar sem Jóhannes dvaldist mörg sumur, leið
honum aldrei úr minni, og í óbyggðum finnst honum óskin um frið og fegurð
næst því að rætast og jökulbungan vera það brjóst, sem veiti honum sálar-
styrk, eins og fram kemur í kvæðinu örœfi. Hvergi finnst honum hann nær því
að komast í snertingu við guðdóminn en á fjöllum. Honum tengir hann tign
fjallanna í Skíðarímu, og í Leiksviði er sem landið rísi af svefni, meðan huldar
vættir bregða á leik:
Stór er íslands eilíf mynd,
— enn er tjaldið dregið frá:
Bláfell upp í ljómans lind
lyftist hreint úr daggarsjá.
Móðir guðs hinn tigna tind
tásu hvíta breiðir á.
En tign og fegurð birtist okkur á síst áhrifaminni hátt, ef við hugum með
Jóhannesi að dýrum og smáblómum, sem hvarvetna verða á vegi okkan
Bláklukka og sóley benda vondöprum manni til lífs og friðar, sbr. smáljóðið I
þraut, og snjótittlingurinn kennir honum að þreyja þorrann og góuna, sbr.
Betlara. Svo gagntekið getur baráttuskáldið orðið af hinum smæsta gróðri, að
það freistist til að slíðra vopnin í eitt skipti fyrir öll og gleyma sér í fegurðar-
draumnum, sbr. Heimspeki eða þessi frægu vísuorð úr Fyrstu jurt vorsins, þar
sem hann ávarpar lambagrasið: