Andvari - 01.01.1988, Blaðsíða 97
HANNES PÉTURSSON
Glófjaðraður hani
Bókmenntir þjóðanna hafa í sér fólginn öldugang áhrifa frá einu tímabili á
annað, frá einni tungu á aðra, frá einum höfundi á annan. Og svo mun verða
meðan orðsins list er uppi í heiminum. Hið sama á við um allar aðrar menntir,
jafnt andlegar sem verklegar.
Mikið er af því gert að rekja áhrif í bókmenntum, allt frá sjálfum hug-
myndaheiminum niður til einstakra orða. Séu áhrifin ekki stælingar, heldur
hvati til sköpunar, hvati til dáða þess er fyrir þeim verður, þá eru þau
sannarlega af hinu góða.
Það er alkunna að til eru í skáldskap frá mismunandi tímum og heimshorn-
um vissar hugmyndir, vissar sýnir og líkingar svo eðlisskyldar, að sumir telja
að það sem yngra er af þeim toga hljóti að vera sprottið af hinu sem er eldra.
Aðrir benda á að skáldum, sem tími og rúm skilja í sundur, geti dottið hið
sama í hug og búið það svipuðum orðum, bókmenntalegum áhrifum í venju-
bundinni merkingu sé þar hvergi til að dreifa.
Eitt munu margir höfundar þekkja: Þeir setja hugsun á blað, ef til vill
skáldlegt svipleiftur, og vita ekki betur en þeir séu frumsmiðir hennar. En svo
kemur upp úr dúrnum að hún er af öðrum smíðuð. Yfirleitt mun þá reyndin
sú, að hugsunin hafi setzt fyrir í brjósti þiggjandans, hann hafi hrifizt af henni
°g geymt hana innra með sér, unz hún hvarf í undirvitund hans og varð eitt
með honum sjálfum. Seinna, á sköpunarstund, stígur hún svo þaðan upp,
ýmist lítið eða allmjög ummynduð, og er notuð á nýjan leik sem eigin eign
þess er hreifst af henni forðum, því hann veit ekki betur, eins og fyrr sagði, en
hann eigi þessa hugsun og enginn annar. Ella hefði hann sjálfsagt ekki fest
hana á blað, því frumleikinn á vorum tímum er svo sem þinglýst fasteign.
Mér kemur í hug að fræg samlíking eftir snilldarmanninn Sigurð Þórarins-
son muni til orðin með þeim hætti sem nú var lýst. Hann kveður í söngljóði:
Akrafjall og Skarðsheiði eins og fjólubláir draumar . . .
Orðin ,,fjólubláir draumar“, notuð um fjöll, eru sérstæð. Samt rakst ég á
þau fyrir nokkrum árum þegar ég las hina kunnu bók sem Albert Engström
skrifaði um íslandsferð sína 191 E Hún kom út í íslenzkri þýðingu Ársæls