Andvari - 01.01.1988, Blaðsíða 174
172
HJÖRTUR PÁLSSON
ANDVARI
tragísk lífsreynsla látin uppi í þeirri tónhæð og með þeim tregablæ, sem
táknrænni merkingu ljóðsins hæfir. Lesendur geta kannski deilt um það,
hversu bókstaflega eigi að taka það sem skilríki um afstöðu Jóhannesar, en
varla um hitt, hve vel honum hafi tekist að tjá innlifun og samkennd með
náttúru landsins og vegsama læknisdóma hennar. Og þeim, sem vita, að
síðustu æviár sín var Jóhannes úr Kötlum fársjúkur maður, finnst Ijóðið
óneitanlega vega enn þyngra vegna þeirrar vitneskju:
Enn heldurðu þig við jörðina
og það er kannski bezt.
Manstu einu sinni í gamla daga
þegar ég skoraði á þig
að hefja þig upp úr niðurlægingunni
lyfta stöngli þínum mót himni
auglýsa fegurð þína.
Pá ráðlagðir þú mér hæversklega
að drekka seyði
af hinum jarðbundnu smálaufum þínum
— það kynni að bjarga blóði mínu.
Þú hinn sígræni
þú hinn rósrauði
þú hinn ilmsæti
hálfrunni flesjunnar:
hví forsmáði ég þitt góða boð?
í sömu tóntegund og þetta ljóð er kvæðið Jcirðemi í Tregaslag og ljóðin
Enn um gras og Undur í síðustu bók Jóhannesar, Nýjum og niðum, þar sem
hann lofar lífsmátt og seiglu tveggja af hinum eilífu smáblómum, grassins og
ánamaðksins.
Sé sú bók borin saman við Óljóð og Tregaslag, á hún margt skylt við þær
báðar. Meginstef hennar eru tvö: ógn og unaður. Örvænting Jóhannesar og
vonbrigði vegna tortímingarhættu og öfugstreymis í þjóðlífi og heimsmálum
fá útrás í mörgum ljóðanna og minna á Óljóð, en á móti koma ljóð, þar sem
hann vegsamar lífið í skauti íslenskrar náttúru af barnslegu trúnaðartrausti og
innlifun, og mörg ljóð af persónulegum toga, býsna sundurleit og oft efa- og
beiskjublandin.
íslands óhamingja, hersetið land og andvaralítil þjóð er efni ljóðanna
Viðlags, Sá bœrheitirí Tungu, Fjarri mannabyggð og Váboða. Enginn getur
bjargað landinu úr háskanum og endurleyst þjóðina nema hún sjálf, sbr.
Vængi og blóm. Þess vegna kalla nauðstaddir áar á hjálp, og börnum þeirra