Andvari - 01.01.1996, Síða 10
8
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
sagt annað komið upp á teningnum. Forsætisráðherra landsins, Davíð
Oddsson, var mjög nefndur sem hugsanlegt forsetaefni manna á meðal og
lengi vel tók hann því ekki fjarri að bjóða sig fram. í viðtali í Alþýðublað-
inu 2. febrúar 1996 var forsætisráðherra spurður álits á þeim röksemdum að
stjórnmálamenn ættu ekki að sitja í embætti forseta. Hann svaraði: „Ég
held að það muni ótvírætt gagnast forseta að hafa verið stjórnmálamaður.
Það er hægt að nefna dæmi um, að það hefði í einstaka tilvikum hjálpað
þjóðhöfðingjum hefðu þeir haft stjórnnmálareynslu. . . . í öllum öðrum
löndum eru kosnir stjórnmálamenn til þessa starfs.“
Þegar þessi orð voru látin falla höfðu engir enn gefið kost á sér til fram-
boðs. Brátt gáfu menn sig þó fram og undir lok framboðsfrests var skorað
á formann Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson. Hann var þessu
ekki frábitnari en svo að hann kannaði möguleika á framboði en hvarf frá
því og birti af því tilefni langa greinargerð („Forsetakosningar - Um hvað“,
Morgunblaðið, 22. maí 1996). Niðurstaða Jóns Baldvins var sú að forseta-
embættið væri valdalaust og því ekki eftirsóknarvert fyrir stjórnmálamenn.
Við erum komin í stjórnskipulegar ógöngur með forsetaembættið, sagði
hann, og „verðum að fara að gera það upp við okkur hvort hinn þjóðkjörni
forseti á að gegna raunverulegu hlutverki í stjórnskipun landsins eða ekki“.
Vissulega er þetta réttmæt ábending. Sú stjórnarskrárgrein sem geymir
málskotsrétt forseta er óhöndugleg í framkvæmd og þyrfti að breyta henni,
helst þannig að lagafrumvarp öðlist ekki gildi fyrr en að lokinni þjóðarat-
kvæðagreiðslu ef það nær samþykki þar. En þrátt fyrir agnúa á stjórnar-
skránni að þessu leyti varð ekki betur séð en Jón Baldvin sýndi forseta-
embættinu töluverðan áhuga eins og Davíð Oddsson gerði líka, þótt hvor-
ugur þeirra yrði í kjöri. Má raunar minna á þá staðreynd að hvað sem líður
margumræddu valdaleysi þjóðhöfðingjans hafa kunnir stjórnmálamenn
ætíð gefið kost á sér þegar nýr forseti hefur verið kjörinn á íslandi.
Þegar framboðsfrestur rann út í vor höfðu fimm tilkynnt framboð, en
einn dró sig í hlé þegar skammt var til kosninga. Meðal frambjóðenda voru
tveir sem setið höfðu á Alþingi og annar þeirra mjög umdeildur stjórn-
málamaður, fyrrum flokksformaður og ráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson.
Skjótt kom í ljós í skoðanakönnunum að hann hefði langmest fylgi. Stóð
svo þótt hann sætti illvígum árásum í blöðum þegar að kosningum leið,
meðal annars í formi neikvæðra auglýsinga sem er einkar ógeðfelld ný-
lunda í kosningabaráttu á íslandi. Almenningur lét slíkt ekki hafa áhrif á
sig nema þá í gagnstæða átt við það sem til var ætlast og fór svo að Ólafur
Ragnar var kjörinn með liðlega 40 af hundraði greiddra atkvæða. Hefur
komið fram í skoðanakönnunum að kosningum loknum að allur þorri
þjóðarinnar sættir sig vel við hinn nýja forseta og ber traust til hans.