Andvari - 01.01.1996, Page 18
16
EINAR ÓLAFSSON
ANDVARI
að hér hefði eitthvað stórt gerzt. Eftir það held ég að ég hafi látið fá
tækifæri ónotuð til að kynna mér, hvað gerzt hafði, aðdraganda þess
og gildi fyrir heimsbyggðina.“ En upplýsingar lágu ekki á lausu.
í áðurnefndu svari sínu við spurningu um lífsskoðun sagði Brynj-
ólfur: „Þegar á barnsaldri fannst mér ég ganga í þoku og myrkri, af
því að ég skildi ekki þann heim, sem ég var fæddur í. Mig þyrsti í
þekkingu til þess að eyða þessari þoku og lýsa upp myrkrið. . . . Til-
gangur minn með allri minni skólavist var þessi þekkingarleit. Eg
hafði óbeit á því að miða námið við hagnýt markmið svo sem undir-
búning undir eitthvert embætti eða ævistarf. Því að til hvers var eitt-
hvert lífsstarf, ef maður vissi ekki til hvers maður var að streitast við
að lifa í þessari veröld? Það var þetta, sem ég vildi vita. Þetta var í
rauninni kveikjan í allri minni þekkingarleit.“ Á minnisblöðum, sem
hann skrifaði á efri árum handa dóttur sinni, sagði hann sig hafa
langað mest til að læra náttúrufræði, ekki getað hugsað sér annað
þótt atvinnuhorfur í þeirri grein væru ekki sérlega góðar.5 Þessi
áhugi á náttúrufræði var fyrst og fremst heimspekilegur og víst er, að
hann naut þekkingar sinnar á náttúruvísindum, þegar hann fór að
setja saman heimspekirit sín löngu seinna.
Þetta var síðasta árið sem íslenskir stúdentar fengu svokallaðan
Garðstyrk og fleytti hann Brynjólfi til náms í Kaupmannahöfn. Þá
um haustið gekk spánska veikin og veiktist Brynjólfur af henni. Þeg-
ar hann komst á fætur tók hann til við námið en hafði lítið næði
vegna gestagangs. Vinir hans komu nær daglega, einkum þeir Jón
Thoroddsen, Pálmi Hannesson og Einar Ólafur Sveinsson, og þarna
á herbergi hans urðu oft harðar deilur. Þótt Brynjólfur hafi kynnst
verkalýðsbaráttu og sósíalískum hugmyndum á menntaskólaárum
sínum sagði hann síðar, að þennan vetur og fyrstu ár sín á Garði hafi
stjórnmálaskoðanir sínar verið að mótast. Þrátt fyrir allan gestagang
og frátafir hafi hann sjaldan lært jafnmikið.
Eitt af því, sem gerðist með fyrri heimsstyrjöldinni og átti eftir að
setja mark sitt á þessa öld, var klofningur sósíalísku hreyfingarinnar.
Styrjöldin knúði forystumenn sósíalista til að taka afstöðu út fyrir
hina daglegu kjara- og umbótabaráttu. Á fundi Annars alþjóðasam-
bands verkalýðsins í Basel árið 1912 var samþykkt að styrjöld skyldi
svarað með allsherjarverkfalli. Þegar til kom studdu þó forystumenn
flestra flokkanna ríkisstjórnir sinna landa og herútboð þeirra. Aðeins
í nokkrum löndum reyndust flokkar, flokksbrot eða einstakir for-